Thursday, November 30, 2006

Þegar maður á að vera að læra

þá finnur maður sér alltaf eitthvað "betra" að gera. Alla vega þegar maður er að reyna að læra 'Desing and Analysis of Experiments' sem er ansi hreint leiðinlegur kúrs sem ég slysaðist til að taka um almenna tilrauna -og líkindaþekkingu. Fer að geispa bara við að horfa á bókina, sama í hvaða líkamlega ástandi ég er og hvað ég er búinn að drekka mikið kaffi.
Alla vega, þá eiga víst að vera 74 bönd á myndinni. Ég er búinn að finna nokkur, en ætla að sjá hvað aðrir eru sniðugir. Get ég glaðst yfir að vera ekki einn um að vera svona einbeitingarlaus í augnablikinu :D

Wednesday, November 29, 2006

Vísindi efla alla dáð

Incubus voru að gefa út nýja plötu sem ber nafnið Light Grenades. Þetta er band sem ég hef lengi átt í ástar/hatur sambandi við. Þeir drengir gáfu út hin stórskemmtilegu S.I.E.N.C.E. árið 1997 og hefur hún lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér. En eftir útgáfu hennar hafa þeir smá saman dregið úr öllu sem gerðu hana svona skemmtilega, blanda af þungum gítarriffum og fönki, og fyllt upp í staðinn með poppi. Það fer því alltaf í taugarnar á mér þegar ég heyri nýja plötu með þeim hve langt þeir hafa fjarlægst það sem þeir voru að gera á S.I.E.N.C.E. , hlusta á þær einu sinni tvisvar og gef þær upp á bátinn. En svo gerist það alltaf að ég hlusta á þær aftur og gef þeim annan séns og læt smitast af meðalmennsku poppkrókunum. Gerðist alla vega með Morning View og Crow Left of the Murder. Sjáum hvernig þessi mun meltast hjá mér, hvort ég muni taka hana í sátt, eða endanlega gefast upp á Incubus. Ég get þá bara haldið áfram að hlusta á The Sword.
Annars eru 14 dagar í fyrsta próf hjá mér.
En það eru einnig 26 dagar til jóla.
Og það sem betra er að það eru 23 dagar þangað ég til ég get hætt að húka einn og yfirgefinn í herbergiskitru með kaffi að læra. Þá get ég komið heim og glaðst með vinum og vandamönnum í ca. 5 vikur. Eitthvað til að hlakka til í skammdeginu hérna í Køben.

Phil Anselmo , eins ágætur söngvari og hanner, er ekki alveg með allar skrúfur hertar held ég :)

Sunday, November 26, 2006

Sveitt og gott tuddarokk

Stundum getur netið verið sniðugt, og einstaka sinnum getur mæspeis verið sniðugt líka. Var að finna á mæspeis hljómsveit að nafni The Sword sem ég er svona líka rosalega ánægður með. Alveg með eindæmum hresst og skemmtilegt tudda stónerrokk/þungarokk. Líklega best lýst sem blöndu af Black Sabbath og Mastodon, eða eitthvað álíka. Mæli bara með að þið kíkið sjálf á mæspeisið þeirra og njótið þeirra laga sem þar er að finna. Lengi lifi hresst þungarokk !

The Sword

Thursday, November 23, 2006

Flipp á faraldsfæti

Síðasta laugardag kíkti ég stuttlega heim á klakann. Ástæða þess var að ég og Gaui ákváðum að koma óvænt í grímupartý til Birnu og Einars. Okkar fannst það voða sniðugt þar sem við gætum verið í búning og allir að spá hverjir þetta væru og ég veit ekki hvað. Klukkan var reyndar 5 eða 6 um morguninn og við vorum á Beduhin Bar að sötra öl númer eitthvað, EN hugmyndin þótti samt góð daginn eftir og flugmiði var verslaður. Eftir magnaða Slayer tónleika á föstudagskvöldinu var þá drifið sig heim frá Svíþjóð til að fara að sofa og vakna í flug daginn eftir. Þrátt fyrir mikla líkamlega þreytu eftir tónleikana var maður svo uppstrekktur eftir Slayer að það gekk hægt að sofna. Það tókst þó að lokum og það tókst svo að vakna og drífa sig upp á Kastrup svo maður gæti lagt sig í flugvélinni. Klukkan ca. 14:30 á staðartíma var maður svo kominn í frostið á Íslandi og Karl Jóhann nokkur var svo elskulegur að ná í mig. Svo var drifið sig út á nes og hurðin heima opnuð. Foreldrar mínir fengu vægt flog þegar ég birtist skyndilega inn um dyrnar og ætlaði að sækja fötin mín sem ég hafði gleymt á þvottasnúrunni í haustfríinu. Þau höfðu meira að segja verið svo sniðug að slysast til að kaupa of mikið af kjöti í matinn svo ég fékk kindafilé og rauðvín með. Endurfundir gleðilegir með öllu. Svo var það að malla forlátan draugabúning úr laki, hafa með sér bjór, gítar, 1L af Opal til að gefa, sækja Guðjón, sækja Kalla og drífa sig í partý.
Ég hélst nú ekki óþekktur lengi þar sem Einar þekkti mig strax þrátt fyrir lakið. En partýið var voðalega skemmtilegt og það var mikið trallað, drukkið, sungið, spilað á gítar, horft á myndbandið um Kameloso, búningar sýndir og mikið snjóað á meðan. Maggi á að klæða sig eins og kafteinn Kolbeinn að staðaldri! Svo snjóaði svona hressilega. Gekk eitthvað að hægt að koma sér heim, en við fengum svo að lokum rasista leigubílstjóra sem lét nokkur miður falleg orð falla um hörundsdökkt fólk þegar hann keyrði framhjá svörtum strák sem var að bardúsa við reyna að labba í gegnum snjólagið.
Sunnudag var meira af veislumat heima og svo kíkt til Gunna að skoða betur nýju höllina í Árbænum. Þar tókum við á því og gláptum á Mission Impossible 3 og gamlan Bond.
Mánudag var svo planið að fara í bíó að sjá Bond. Ég var samt sá eini af vinum mínum sem komst inn þar sem skyndilega var mættur múgur af fólki í Regnbogann sem vildi sjá Bond og ég var sá eini sem mætti tímanlega. Hefði keypt miða handa þeim en það var enginn þarna þegar ég mætti svo ég hafði engar áhyggjur af þessu. Þeir fóru víst á Mýrina í staðinn. Bond var góður, mæli með honum.
Snemma á þriðjudagsmorgni var svo alvaran tekin aftur við og flogið til Køben þar sem mín beið að fara upp í DTU að klára síðustu skýrlsuna í Acoustic Communication með vinnuhópnum mínum.
Eini gallinn var hvað maður var stutt og gatt ekki hitt alla sem mann langaði að hitta. Verð sem betur fer töluvert lengur heima (svona 4 vikum meira) þegar ég kem heim eftir jólaprófin. Hver veit nema mér takist að halda eitthvað gott partý í tilefni 25 ára afmæli míns þann 27 desember. Sjáum hvað gerist ;)

Friday, November 17, 2006

Slayer !!!

Ég var að koma af Slayer tónleikum í Malmö í Svíþjóð ! Það var drullugaman ! Ég fór fremst í moshpittinn og hoppaði og skoppaði eins og rugludallur ! Brenndi örugglega 7000 kaloríum ! Hlýtur að hafa verið hollt ! Keypti bol, hann er töff ! Sá pabba með 5 ára son sinn sem hann var búinn að kaupa á Slayer bol, Slayer húfu og setja á iðnaðar heyrnahlýfar ! Hann var svalastur af öllum :)

Sunday, November 12, 2006

Að hafa hár, eða meira hár. Þar liggur efinn

Ólafur Haukur nokkur, góð vinur, sambýlingur, og gagnkynhneigður lífsförunautur, hefur heimtað að ég setji upp netkosningu. Einu sinni leit ég út u.þ.b. svona:





sýnist samt að ég sé örugglega tiltölulega nýklipptur á þessari mynd þar sem hárið á mér var að staðaldri aðeins síðara en þarna. Gekk eitthvað illa hjá mér að finna myndir af mér frá þessum tíma. Þar sem ég var ekki alveg jafn úbervirkur í kórfélagslífinu þá og síðar varð raunin. Þeir sem vilja því kanna málið frekar ættu því að skoða meira af myndum úr eldra myndasafni kórsins.
Óli alla vega saknar lubbans og vill fá hann til baka. Hefur aldrei verið ánægður með þá ákvörðun mína að klippa mig. Núna lít ég út u.þ.b. svona:





Til að friða Óla ætla ég því að setja hér fram netkosningu. Með atkvæði Óla hefst því staðan sem:
sítt hár 1 vs minna sítt 0

Öllum sem langar að leggja atkvæði í belg er frjálst að gjöra svo.

Friday, November 10, 2006

Plötubúðir eru hættulegar fjárhag mínum

Ég get einfaldlega ekki stigið inn í plötubúð án þess að kaupa eitthvað. Skelfilegur sjúkdómur. Í dag fór ég að þvælast um Køben með honum Birni Önundi að skoða orgell. Skoðuðum meðal annars flott notað orgell með meðfylgjandi Leslie snúningsmagnara á 16.000 DKK = 186400 ISK. Hægt að fá gott 70's rokksánd úr slíkum grip, auk ýmissa annarra skemmtilegra hljóða. Svo fórum að þvælast niður í bæ og kíkti ég í nokkrar hljóðfæraverslanir líka því mig langar í Fendar Jazzbass, helst með aktívum pikköppum. Danir vilja þó fá 5000 - 7000 DKK = 58250 - 81550 ISK fyrir slíkan grip, held minnst 6500 DKK = 75725 ISK ef pikköpparnir voru aktívir. Finnst það heldur mikið fyrir grip framleiddan í Mexíkó. Svo enduðum við á að kíkja inn á TP Musik Marked þar sem Björn hafði aldrei stigið þar fæti inn þrátt fyrir að hafa búið hér í meira en eitt ár. Þar sé ég að sjálfsögðu Beneath The Remains með hressu brasilísku strákunum í Sepultura á tilboði og stenst því ekki freistingu að bæta henni við safnið. Sé svo líka Doolitle með Pixies sem mig vantaði líka. Hleyp því með þessar tvær plötur að afgreiðslukassanum og greiði fyrir 140 DKK = 1631 ISK áður en ég enda með að kaupa eitthvað meira. Hefði eflaust endað með að kaupa plötu með Herbie Hancock sem var þarna á tilboði ef ég hefði ekki drifið mig í að borga.

Tuesday, November 07, 2006

Mig langar í meiri músík

Nú eru komnir meira en 2 mánuðir í Danalandi og engar hjómsveitaæfingar, engar kóræfningar, ekkert. Farinn að fá fráhvarfseinkenni á hæsta stigi. Alveg kominn með upp í kok að sitja einn á kvöldin og glamra lög á rafmagnsgítar sem er ekki tengdur í samband. Mig langar að fara að spila eitthvað. Hresst og skemmtilegt, stóner-skotið pönk rokk. Eða blanda saman stónerrokk riffum með hressum jazzpíanó línum. Eða eitthvað gott þungarokk, blanda saman áhrifum frá Megadeth, Slayer, Pantera, Fear Factory og ég veit ekki hvað í pakka sem hægt er að brúka til að hoppa við og skoppa, auka tíðni hálsríga og ergja leiðinlega nágranna. Ég vil sjá lausn á þessu vandamáli, en það verður líklega að bíða heimfarar. Verður víst æfingarherbergi á kollegíinu sem ég er að fara flytja í. Kannski ég kenni sjálfum mér að tromma eða eitthvað til að róa taugarnar. Ef það verður trommusett þar.

Monday, November 06, 2006

Meiri Gleði

Ég er víst kominn með 13 m2 íbúðarholu í Hørhuskollegi í amager, c.a. 10 - 20 mín fjarlægð frá þar sem ég er núna. Ætti því að verða orðinn sjálfs míns herra með eigið húsnæði eftir einhverja daga. Svo pantaði ég mér miða í gær á Unholy Alliance Tour í Malmö 17 nóvember. Fæ þá að sjá gömlu stuðboltana í Slayer á sviði. Verður ekki leiðinlegt !

Saturday, November 04, 2006

Gleðilegir dagar

Í gær var J-dagurinn. Þá kom jólabjórinn og allir fögnuðu mikið, við að sjálfsögðu líka. Í gær átti Karl Jóhann líka afmæli, náði þeim merka rokk-aldri að verða 27 ára. Það er að sjálfsögðu gleðilegt og ég vona að menn hafi fagnað mikið á Íslandi og hann synt í gjöfum. Fær alla vega formlegar hamingjuóskir hér á netsvæðinu mínu.
Annars langar mig að vita af hverju UNICEF og amnesty fólkið er alltaf að elta mig þegar ég er að hlaupa í lest eða koma heim úr lest. Gerist ansi reglulega að þau sjá mig og taka jafnvel krók í gegnum annað fólk til að fá að segja mér aðeins frá því sem þau eru að gera. Ég þarf þá ávallt á misbjagaðri dönsku að segja þeim að ég sé fyrir löngu byrjaður að gefa þeim heima á Íslandi og láti af hendi mánaðarlega fjármuni sem gæti dekkað handa mér kippu af bjór. Og svo þarf ég að hlaupa svo ég missi ekki af lestinni. Ég skil samt alveg af hverju þau elta fólk eins og mig. Eldra fólkið segir vanalega strax nei og nennir ekkert að hlusta á þau. Við hin vanalega stoppum og endum með að gefa eitthvað. Þó það sé ekki mikill peningur í okkar augum þá gerir það samt helling.
Ég hef líka einu sinni verið stoppaður fyrir utan metróstöð og verið boðin klipping. Kona og stúlka sem voru að læra hárgreiðlsu í skóla nálægt stöðinni fannst ég hafa voðalega klippivænt hár og langaði að gefa mér klippingu samkvæmt nýjustu tísku og lita hárið á mér. Ég ákvað að afþakka það pent. Þar sem maður er nú orðinn einbúi í steinsteypufrumskóginum er líklega frekar við hæfi að maður fá sér alvöru einbúa hárgreiðslu og geri eitthvað minna af því að klippa hár sitt og raka. Sjáum hvernig það fer.