Tuesday, May 31, 2005

Lengi lifi Armenarokkið !!

Á föstudaginn var kíkti ég í bæinn að kaupa gjöf og sá þá að út var kominn nýr diskur með hressu strákunum í System Of A Down. Þetta er hljómsveit sem ég kom fyrst í kynni við í tölvunarfræðitíma í MR. Þar var einn vinur minn að skoða heimasíðu sveitarinnar og fór að segja mér frá nýju rokksveitinni sem hann var að fýla. Skoðuðum einnig mjög svo skemmtilegt myndskeið af þeim drengjum að spila lagið úr Zelda leikjunum og höfðu samið við það einhvern texta. Þetta er í raun mjög lýsandi fyrir sveitina, því hún er á sama tíma mjög pólitísk en tekur sig engan vegin alvarlega og húmorinn í lögunum sjaldan langt undan, þrátt fyrir háalvarlegan boðskap. Svo gerist það árið 2001 að drengirnir gefa út sína aðra plötu, Toxicity, sem hann Gunnar vinur minn fjárfesti í. Við gjörsamlega nauðguðum þeim disk og hlustuðum á öllum stundum og upphófst frá því mikil hrifning mín af bandinu. Ég fjárfesti stuttu seinna í disknum ásamt því að kaupa fyrstu plötuna, sem ber nafn hljómsveitarinnar. Eftir Toxicity urðu System Of A Down eindæma vinsælir og var þá gefin út plata sem innihélt þau lög sem ekki höfðu komist á fyrri plöturnar. Ber hún nafnið Steal this Album, sem er nafn með renntu. Platan ekkert spes, enda lögin leyfar. En nú voru þeir að gefa út plötuna Mezmerize, sem er stórgóð og hefur verið í nokkuð þéttri spilun hjá mér síðan á föstudaginn.
Annars er það um þá drengi að segja að þeir koma allir frá Armenahverfinu í Los Angeles og er sveitin að mestu hugarfóstur gítarleikarans Daron Malakian sem stofnar hana árið 1995 og sveitin því 10 ára. Hann fékk til liðs við sig söngvarann Serj Tankian, bassaleikarann Shavo Odadijan og trommarann John Dolmayan. Sveitin varð fljótlega vinsæl innan jaðarrokksenunar í LA og gaf út sína fyrstu plötu árið 1998 eftir að hafa fengið samning hjá Americana. Tónlist sveitarinnar er bæði mjög ryðmísk auk þess innihalda mikið af melóldíum, sem eru oftar en ekki byggðar á miðausturlenskum mollskölum. Aðdáendur tengdu það að sjálfsögðu strax við armenskan uppruna liðsmanna en Daron hefur nú yfirleitt haldið því fram að áhrifin séu komin frá Iron Maiden, sem getur vel staðist þar sem Maiden hafa ekkert verið óduglegir að brúka þessa skala. Sjálfur ætlaði Daron alltaf að gerast trommari, en þar sem foreldrar hans bjuggust ekki við að það yrði mikill heimilsfriður eftir það var sú stefna tekinn að gefa honum gítar, alltaf hægt að taka hann úr sambandi ! Þetta olli þó því að Daron hugsar alltaf lögin fyrst út frá ryðmanum áður en hann fer að vesenast í að gera melódíur yfir hann, ekki erfitt að verða var við þau áhrif. Með tilkomu Toxicity árið 2001 voru drengirnir komnir með plötu sem seldist í margfaldri platínu og setti þá efsta í hinni deyjandi Nu-Metal/Alternative senu sem hafði verið aðalrokksenan í Bandaríkjunum eftir að grönsjið dó með Kurt Cobain. Henni var fylgt eftir með stífum túr og vinsældirnar nýttar til að beita sér í ýmsum pólitískum málefnum og útgáfu. En nú er komin út fyrri hluti tveggja plötu verks, Mezmerize/Hypnotize, en búast má við því að seinni hlutinn komi í búðir í byrjun haust. Ef hann verður eitthvað í líkingu við fyrri hlutann verður þar mikil snilld á ferð og mun ég bíða spenntur eftir honum.

Wednesday, May 04, 2005

Dómsdagurinn nálgast !

Í sumar ætla ég á Hróaskeldu, en það er eitthvað sem hefur staðið til lengi en aldrei orðið að. Nú er tíminn kominn ! Aðalástæðan þó til að fara í sumar er að nú gefst færi á að sjá gömlu snillingana í Black Sabbath. Þeir eru þarna allir: Tony Iommi, Geezer Butler, Bill Ward og síðast en ekki síst Ozzy Osbourne. Kallinn virðist varla geta talað eða gengið dags daglega, en þegar hann er kominn á sviðið virðist eins og lifni alveg yfir honum. Getur þetta enn kallinn. Black Sabbath eru ansi merkilegir fyrir þær sakir að fáar rokksveitir, ef nokkrar, geta státað af því að hafa haft eins mikil áhrif á þá sem á eftir þeim fylgdu. Hljómsveitir eins og Cream voru nú þegar farnar að nota fuzz og distortion til að þyngja og magna gítarhljóminn hjá sér, en Sabbath menn tóku þetta skrefinu lengra. Tony Iommi varð líka fyrir því óhappi að missa framan af löngutöng og baugfingri í vinnuslysi, daginn sem hann ætlaði að segja upp vinnunni. Þetta varð til þess að hann þurfti að stilla gítarinn niður í dýpri stillingu til að slaka á strengjunum svo það væri ekki eins sárt fyrir hann að spila. Þetta olli því að fram á sjónarsviðið var kominn hljómsveit sem hafði þyngri og bjagaðri hljóm en áður hafði þekkst. Tekstarnir fjölluðu flestir hverjir um komu dómsdagsins, stríð, djöfulinn, galdra, geðveiki, hassneyslu meðlima, auk annarra skemmtilegra umfjöllunarefna. Þungarokkið var fætt.

Black Sabbath verður til árið 1967 þegar Tony Iommi stofnar rokksveitina Earth með gömlum skólafélögum sínum. Stuttu seinna missir hann svo framan af puttunum sínum, en eftir að hafa hlustað á Django Reinhardt (sem hafði aðeins tvo putta til að spila með) og fengið hlífar á puttana, ákveður hann að gefa ekki gítarinn upp á bátinn þrátt fyrir slysið. Iommi býðst stuttu seinna að ganga til liðs við Jethro Tull, en hann hafnar því og ákveður að halda ótrauður áfram með Earth. Hljómsveitin neyðist svo til að skipta um nafn þar sem önnur sveit sem heitir Earth er að spila á Englandi. Fyrir valinn verður Black Sabbath, eftir klassískri hryllingsmynd, og með nafnbreytingunni fylgir sú ákvörðun að gera þyngri tónlist en áður hafði þekkst. Undir lok ársins 1969 koma þeir svo með sína fyrstu plötu samnefndri sveitinni. Árið 1971 fylgu þeir henni eftir með plötunni Paranoid. Lagið Paranoid, sem þeir sömdu á 15 mínútum, varð geysivinsælt og gullaldarskeið Sabbath var hafið. Eftir fylgu snilldar plötur eins og Master of Reality, Vol. 4 og Sabbath Bloody Sabbath. Eftir það fer þó hassneysla liðsmanna að segja verulega til sín og hefur það áhrif á lagasmíðarnar. Iommi vill fara að stunda tilraunamennsku en Ozzy vill halda áfram á beinu brautinni. Ágreiningurinn veldur því að hann hættir árið tímbundið í nóvember1977 en kemur aftur í janúar 1978. Ein plata er svo gerð í viðbót áður en Ozzy kveður bandið endanlega, og hefur stuttu seinna mjög svo farsælan sólóferil. Í stað hans er fenginn stórsöngvarinn Ronnie James Dio, en hann var orðinn þreyttur á samstarfi sínu við Ritchie Blackmore í hinni ágætis sveit Rainbow. Þrátt fyri það ná Sabbath aldrei fyrri hæðum og leiðin liggur hægt og örugglega niður á við. En árið 1996 gerist það að upprunlegir meðlimir sveitarinnar koma aftur saman og halda nokkra tónleika. Úr verður tónleikaplatan Reunion og sveitin hefur síðustu ár spilað öðru hvoru á tónleikum og blikur hafa verið á lofti að kannski muni verða til ný Black Sabbath plata með gömlu köllunum. Sjáum til hvernig þeit standa sig á Hróa. Ef tónleikarnir verða góðir er aldrei að vita nema maður fari að vonast eftir nýrri plötu.