Friday, October 28, 2005

Kvef smef !!

Í dag er ég kvefaður. Í gær var ég kvefaðri. Tókst samt að afreka það læra undir spænskuprófið sem var í dag og gekk bara ágætlega. Mér leiðast veikindi rosalega, eitthvað það ömurlegasta sem ég veit um. Verst er samt eiginlega svona millistigsveiki, maður er alveg myglaður og á mörkunum að vera starfandi, en samt getur keyrt sig áfram og komið einhverju í verk (því fylgir reyndar vanalega ágætis vanlíðan). Ég á það til að vera frekar þrjóskur, sérstaklega þegar ég á ekki að vera það og veikindi er eitt af þeim sviðum. Vanalega mjög óduglegur að taka mér veikindadaga þegar ég er í vinnu eða slappa af þegar ég er skólanum. Þess í stað er tekin upp stíf drykkja á te og kakó, súpuát, drukkin hóstasaft og sólhattur og ýmis kvefmeðul innbyrgð. Það sniðuga í stöðunni er hins vegar að segja bara fokkit, ná sér í vottorð hjá lækninum, leigja sér fullt af vídeó og koma sér þægilega fyrir fyrir framan sjónvarpið. Viskan segir að það sé það sem maður eigi að gera næst, sjáum hvað kemur úr því. Maður er oft furðufljótur að gleyma eiginn ráðum.

Thursday, October 20, 2005

Tortilla = eggjakaka

Jamm, ótrúlegt en satt. Búinn að halda í mörg ár að tortilla þýði maískaka, en nei, sannleikurinn hellist yfir mann eins köld vatnsgusa. Tortilla þýðir sem sagt eggjakaka, og tortilla de maiz er maískaka og tortilla de harina er hveitikaka, eins og maður hefur yfirleitt með mexíkóskum mat, en á stefnuskránni hjá mér að gera einhvern tíma sjálfur svona köku úr maísmjöli. Fróðleikur dagsins sem ég lærði af fyrirlestri í spænsku um tortilla de español/tortilla de patanas sem er spænsk eggjakaka með kartöflum. Sjálfur flutti ég minn mjög svo tyrfna fyrirlestur um Máraveldið sem var í denn á Spáni. Birna Kristín fær mikið þakklæti fyrir aðstoð við yfirlestur á textanum sem ég held að hafi komið ágætlega út (Vei öllum þeim sem þurfa að þýða fræði-íslenskuna mína á annað tungumál, enda tók það mig tvo daga að koma tveimur síðum af henni yfir á bjagaða spænsku). Flestir greinilega sniðugri en ég og kusu að tala um meira léttmeti eins og smásögur, Fridu, Spanglish, eggjakökur og borg á Spáni (fékk nú samt hrós fyrir mjög áhugavert efni). Í tilefni dagsins gefum við sem tóndæmi smá latino pönk í boði voodoo glow skulls frá LA:
Cochino
Shoot The Moon

Sunday, October 16, 2005

Gulir uppþvottahanskar

Á föstudaginn var kíkti ég á Rokktóberfest á Gauknum ásamt Einari og Gunna vinum mínum. Það hafði verið auglýst að tónleikarinar ættu að hefjast kl 21:00 svo við mættum galvaskir um hálftíuleytið. Hins vegar kom á daginn að tónleikarnir áttu ekki að hefjast fyrr en 11 þar sem það væri stjórnmála- og hagfræðidjamm þangað til. Gaui, Jón Ólafur og Gauti komu þá á elleftu stundu og við mundum skyndilega eftir öllum hagfræðikúrsunum sem við erum skráðir í og gengum inn. Þetta kvöld varð ég fyrst vitni að hinni íslensku hljómsveit dr. Spock og get ég ekki annað sagt að þar fari á ferð með skemmtilegri böndum sem Ísland hefur alið af sér. Tilraunarokk í anda Faith No More og Fantomas. Því miður vantaði annan söngvara sveitarinn, Óttarr Proppé úr hinni fornfrægu HAM, og því var settið þeirra í styttri kanntinum. En það var þó ekkert gefið eftir og greinlegt að liðsmenn sveitarinnar voru að skemmta sér konunglega, sem smitast yfirleit út í áhorfendaskarann. Sérstaklega fær hinn söngvari sveitarinnar prik í kladdann, en hann hélt uppi miklu stuði með gula uppþvottahanska (sem ku víst vera merki sveitarinnar) á höndunum, dansandi skrítinn dans sinn með viskí í annarri hendinni sem hann dreyfði glaður meðal áhorfenda. "Viljið viskí, opna !!!" og svo viskíinu skvett yfir fólkið í fremst röð. Þögn fenginn í salinn til að heyra óm úr Glaumbar og svo fylgdu hin ódauðlegu orð: "heyriði í Glaumbar þarna hinum meginn ? Nú ætlum við rífa staðinn niður ! Fokk Selfoss !! Rampage !!! Virkilega hressir og skemmtilegir tónleikar og núna er nauðsyn að sjá þá aftur með lengra sett og Óttarr innanborðs á hinum míkrafóninum. Ákvað því að rölta í dag niður í Skífu og láta af hendi brot af mínu litla fé til að eignast tónlistina, diskinn Dr. Phil, á plasti. Varð ekki fyrir vonbrigðum með þann grip. Set hér smá tóndæmi svo þið getið notið snilldarinnar !
Condoleeza
Rampage

Wednesday, October 12, 2005

Hanaslagur veldur bakverk

Þessa helgi lauk mínum þriðju æfingabúðum í Hlíðardalsskóla. Alltaf jafn gaman af því. Fyrst var reyndar fylgst með Telmu standa sig með stakri prýði að vera að keppa í idol, verður spennandi að sjá hvernig úrslitin úr því æxlast. Eftir fylgir Pizza Hut og étið á sig gat sökum svengdar, en það að sjálfsögðu gaf af sér kraftmeltingu og væga magaverki daginn eftir. Muna að allt er gott í hófi. Miklir leikir fylgja eftir um kvöldið til að hjálpa nýjum kórmeðlimu að kynnast okkur sem höfum verið meðlimir helst til lengi. Úr því varð þá einnig hið stórskemmtilega bjórlíkingalag sem ég samdi og sá Guðjón um textagerð. Eftir fylgja svo stífar æfingar daginn eftir, magnað sundrugby þar á eftir til að virkja vöðvana og brenna öllu kexinu sem maður er búinn að vera að maula yfir daginn. Eftir sundið fórum við Kalli náttúrulega í það að malla hin klassíska Hlíðdalsskóla Mexíkóa mat, og eins og vaninn er þá text okkur ávallt að bæta okkur frá ári til árs. Skemmtileg skemmtiatriði, djamm, söngur og miðnætursund. Þar bar helst á að við hófum að berjast grimmt í hanaslag. Það olli eymslum í öxlum og baki sem ég er ekki enn búinn að ná mér af ! Fyllerístaco eftir sundið og svo í háttinn. Þynkuskúringar daginn eftir og American Style, klassi.
Vill einnig deila með okkur hljómsveitinni The Real McKenzies sem ég hef verið að hlusta á grimmt síðustu daga. Eiturhresst skoskt þjóðlagapönk með sekkjapípum og alles í boðir hressra Kanadabúa af skoskum ættum. Læt fylgja með smá tóndæmi.
Droppin' Like Flies
The Night the Lights Went Out In Scotland

Tuesday, October 04, 2005

Risaeðlan unga

Hef ekki gert neitt rokknördablogg lengi, kominn tími til að bæta úr því. Ætla því að skrifa aðeins um sveit sem ég uppgötvaði fyrir ekki svo löngu og heitir Dinosaur Jr. Þessi sveit var stofnuð um miðjan níunda áratuginn og samanstóð þá af J. Mascis á gítar/söng, Lou Barlow á bassa og Murph á trommur. Hljómur sveitarinnar er frekar hrátt og poppað rokk með mjög bjöguðum gítarhljóm (samaburður við Pixies óumflýjanlegur). J. Mascis myndi ansi seint komast langt áfram í Idol keppninni, en sakleysisleg rödd hans passar eins og hanski við gítarleik hans, en J. Mascis er tvímælalaust með betri gítarleikurum sem ég hef heyrt í. Á níundaáratugnum voru menn ekki neitt nema geta vippað fram einu hetjusólói úr vasanum og því þóttu sóló ekki beint vinsæl í jaðar - og pönk rokk senunum. En Mascis kemur í staðinn með flott tilfinnigarík sóló sem ógerningur er að leika eftir og bætir þannig á einu bretti alveg fyrir takmarkaða söng getu sína, tilfinningarnar sem hann getur ekki skilað í söngnum brjótast í staðinn í gegnum þessi ótrúlegu sólóum. Hann hefur nú ýtt David Gilmor úr Pink Floyd í annað sætið hjá mér yfir uppáhalds sólóista.
Dinosaur Jr. gefur út þrjár plötur á níundaáratugnum í sinni upprunalegu mynd: Dinosaur Jr. , Your Living All Over Me og Bug. Allar eru plöturnar snilldar blanda af óhljóðum og bjöguðu, grípandi og pönkuðu rokki, en Your Living All Over Me stendur þó upp úr sem gimsteinn sveitarinnar. Virkilega góð plata þar á ferð. Því miður fóru að koma brestir í sveitina og á endanum stóð Dinosaur Jr. eftir sem sólóverkefni J. Mascis. "Sveitin" er þá kominn með samning hjá meginstraums plötufyrirtæki og eftir að Nirvana gerði allt sem var hægt að bendla við orðið "alterntive" hipp og kúl jókst áhugi á sveitinni töluvert. J. Mascis sendir á þessum tíma frá sér nokkrar fínar plötur, en hefur hér greinilega minnkað fuzzið og bjagaða gítarhljóminn. Plöturnar eru fínar þrátt fyrir það, en tapa af miklu leyti sjarmanum og hef ég því meira gaman af 80's efninu þeirra. Nú nýlega voru 80's plöturnar endurgefnar og af því tilefni ákvað sveitin að koma aftur samann í sinni upprunalegu mynd og túra, þrátt fyrir að það hafi andað köldu milli meðlima hennar lengi. Vonum bara að það endist og að við fáum nýja plötu. Myndi passa vel saman ef við fengjum bæði nýjar Dinosaur Jr. og Pixies plötur, væri alveg sáttur með það.
Tóndæmi:
Freak Scene
Kracked