Tuesday, July 25, 2006

Matarhornið - Lasagne

Mér finnst gott að borða, sérstaklega góðan mat. Þess vegna hef ég tekið þá ákvörðun að byrja að henda hér inn öðru hvoru uppskriftum sem hafa reynst mér vel við að halda mér mettum og sælum. Þær eru líka oftast hollar sem skemmir ekki. Einnig mun ég líka reyna að koma með hugmyndir um hvernig megi grænmetisvæða kjötrétti fyrir Siggu grænmetispönkara og aðra sem hafa verið að spá í að hætta að leggja littlu lömbin sér til munns (Kalli, þú varst grænmetisæta í eitt eða tvö ár var það ekki ?).

Alla vega, fyrsti réttur verður Lasagne:

Nr.1 Kjötsósa
Byrjum á því að saxa fínt lauk og 2-4 hvítlauksrif og steikja við meðal hita í ólífuolíu í nokkrar mínútur. Í klassísku lasagne er yfirleitt einnig saxaðar/rifnar gulrætur og saxað sellerí. Ég set alla vega alltaf gulrætur en selleríið fer eftir smekk þeirra sem þurfa að borða það með mér. Restin af grænmetinu sett með lauknum og steikt í 2-3 mínútur áður en nautahakkið er sett á pönnuna. Steikið hakkið þar til það er brúnað og kryddið með svörtum pipar, oregano, smá salti og mikið af basil. Svo skal setja út í eina til tvær dósir af niðursoðnum, söxuðum tómötum (mæli ekki með að nota ferska, sósan vill þá oftast verða of súr), hræra vel saman, lækka hitann niðrí ca. 1/4 af hámarki og leyfa svo sósunni að sjóða í 45 - 60 mín við lágan hita (löng suða við lágan hita er lykill á bakvið allar góðar ítalskar sósur, og indverska karrýrétti). Æskilegt er að smakka á sósunni eftir ca. 30 mín suðu og krydda þá meira með basil og/eða svörtum pipar ef þörf er á. Þegar 5 - 10 mín eru eftir af suðu skal hræra saman við eina litla dós af tómatpúre og þá er kjötsósan tilbúin.
Ekki ætti að vera mikið mál að grænmetisvæða sósuna með því að sleppa nautahakkinu og setja þess í stað eitthvert grænmeti. Grunar mig sterklega að það gæti komið vel út að nota í staðinn saxaðan kúrbít (zúkíní).

Ostasósa:
Byrjið á að bræða væna klípu af smjöri (30 - 50g) í potti við lágan hita (ekki einu sinni reyna að skipta smjörinu út fyrir olíu, sósan mun bara brenna við og allt verða ónýtt !). Hafið því næst tilbúin 1,5 dl af hveiti og svona 5-6 dl af mjólk. Bætið 1 dl af hveiti við smjörið og hrærið saman. Bætið meira af hveiti ef ykkur finnst smjör/hveiti gumsið ekki vera orðið nógu þykkt. Hellið svo mjólkinni strax saman við í hægri bunu og hrærið allan tímann á meðan. Kryddið með smá salti, svörtum pipar og slatta af múskati (nutmeg). Látið suðunu koma upp við lágan hita og hrærið reglulega á meðan til að passa að sósan brenni ekki við og ekki myndist kekkir. Þegar suðan fer að koma upp á sósan að verða orðin tiltölulega þykk. Þá setjið þið saman við 60 - 70 g af rifnum parmasen osti (ekki nota duftið í dollunum ! Getið fengið bæði heil stykki og rifinn ferskan í poka í Hagkaup, og örugglega fleiri stöðum). Hrærið vel saman og takið af hitanum.

Hitið ofninn upp í 190 °C og finnið mót undir lasagne-ið. Byrjið á að setja eitt lag af kjötsósu, svo lag af ostasósu og svo lasagne pastaplötur. Þið getið notað þurrar lasagne pastaplötur, en ég mæli sterklega með að þið notið ferskar plötur. Gerir þetta allt miklu betra. Haldið áfram að setja lög í mótið þar til það er fullt og passið að þekja alltaf allar pastaplöturnar með sósu svo þær brenni ekki í ofninum. Setjið svo að lokum rifinn ost ofan á (ég kaupi alltaf rifinn pizza-ost í poka) og setjið í ofninn í ca. 12 mín ef þið eruð með ferskar plötur, en um 20 mín ef þið eruð með þurrar plötur ef minnið mitt er ekki að bregðast (ætti að standa utan á pakkanum).

Kjötsósuna er svo einnig hægt að nota í spaghettí. Gerið sósuna eins og stendur fyrir ofan og sjóðið spaghettí með (komið upp suðu á fullum potti af vatni sem þið hafið saltað og látið pastað sjóða í um 2 mín styttri tíma en stendur á pakkanum).

Tuesday, July 18, 2006

Scoobie Doo ?

Monday, July 17, 2006

Kurt Cobain vs Dyravörður

Skemmtileg klippa af Kurt Cobain, handónýtum eftir stífa hóstasaftsdrykkju, að slást við dyravörð á úttroðnum skemmtistað að nafni Trees í Dallas. Nokkuð frægt atvik, sérstaklega þar sem mismunandi sögur eru um hvort dyravörðurinn hafi verið að reyna að aðstoða Kurt eða ýta honum ofan í þvöguna.
Kurt Cobain vs. a bouncer

Wednesday, July 12, 2006

Til hamingju Gunnar

Um síðustu helgi gerðist sá merkilegi atburður að hann Gunnar Rafn vinur minn til 15 ára, eða svo, gekk í það heilaga með kærustu sinni Jessicu (núna konu), en þau hefði verið saman þá í 5 ár. Athöfnin fór fram á árbakka Elliðarár í fínu veðri og var sæt og krúttleg í alla staði. Nóg var um vænar veigar, frábær matur, minns hélt ræðu og tróð svo og upp með Blásýru og spilaði þar til fólk hafði ekki hvorki ráð né rænu lengur á að hrista skanka. Það er ekki laust við að skrítin tilfinning fari um mann að einn af mans elstu og bestu vinum sé orðinn virðulegur og giftur heimilisfaðir þó þetta sé ekkert sem komi manni óvart.
Óska þeim velfarnaðar um aldur og ævi og megi þau ávallt vera hamingjusöm !

Kominn tími á færslu !!

Jamm, minns búinn að vera latur að skrifa, en ætla að reyna að segja eitthvað frá ferð minni á Hróaskeldu.

Miðvikudaginn 28. júní lögðum ég og Gunnar af stað í flug til Danmerkur. Á Kastrup hittum við fyrir Atla, sem hafði skroppið til Danmerkur á sunnudeginum áður, og þegar á brautarstöðina var komið hittum við hann Gaua sem var svo góður að leyfa okkur að gista fyrstu nóttina í íbúðinni sinni. Þar hittum við fyrir Birnu og Einar, kíktum í kebab, versluðum bjór og héldum ágætis fögnuð, þó svo ekki hafi gengið sem skildi að gera móhíto (soldið erfitt þar sem Gaui átti ekki myntulauf, klaka eða sóda).

Daginn eftir var haldið í langa ferð um Köben í leit að vindsængum, sem hafðist að lokum eftir mikið rölt. Röltið olli því þó að við komum helst til seint á tjaldsvæðið og því missti ég af tónleikum dEUS, þar sem ég átti eftir að tjalda. Heyrði þó nokkur lög óma meðan verið var að reisa tjaldið. Næstir á svið voru Guns 'N Roses, en sú sveit hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Reyndar er Axl Rose sá eini sem er eftir og því var maður aðallega mættur til að sjá hvort hann kynni enn að syngja. Axl er í hörkuformi og getur sungið eins og aldrei fyrr og fór létt með að trylla líðinn með gömlu göns slögurunum. Því miður lét hann okkur bíða í klukkutíma og var full duglegur að láta hljóðfæraleikaran vera að djamma eða sína sóló listir milli laga og fannst mér það koma mikið niður á tónleikunum. Hann jafnar sig því út í meðaleinkunn. Planið var líka að sjá Sigur Rós, en ekkert varð úr því sökum seingangs Axl og félaga. Orðið á götunni að þar hafi ég misst af góðu tónleikum.

Föstudagurinn var hafinn á því að kíkja aðeins í Hróaskeldubæinn, fá sér í svanginn þar og tjilla. Við klikkuðum þó aðeins á klukkunni og misstum því af Gogo Bordello. Tónleikarunan byrjaði því á epísku sænsku dauðarokki í boði Opeth, sem skiluðu sýnu með stakri snilld. Þaðan var rölt framhjá Morrisey, en þar sem ég þekki mest lítið af sóló dótinu hans var stutt stoppað og þess í stað kíkt á sænskt metalcore í boði Burst. Ég hafði ekki heyrt í þeim áður, en þeir komu skemmtilega á óvart með flott og skemmtilegt metalcore. Endaði meira að segja að versla með þeim disk sem ég rakst á í plötubúð á Strikinu. Því næst var haldið af stað að skoða norskt rokk/post-core í boði JR Ewing. Þeir voru þó ekki að gera mikið fyrir mig og stoppið því stutt. Að lokum var svo kíkt á Death Cab for Cutie. Bjóst ekki að þar væri kaffi við mitt hæfi (vil kaffið mitt biksvart og sterkt), en þeir voru hressir með skemmtilegt indie rokk og fá prik í kladdann fyrir það.

Laugardagurinn hófst með hressu pönkrokki í boði Lagwagon sem kom manni vel í gírinn fyrir daginn. Ætlaði að fá mér bol, en fann ekki. Því næst haldið í pyttinn hjá Orange að hlýða á Deftones. Þeir skiluðu sínu, en það voru þó vonbrigði að fá ekki að heyra hvorki passanger né Digital Bath, sem eru mín uppáhalds með sveitinni. Fínir tónleikar þó og mér leiddist ekki. Því næst var fengið sér aðeins í svanginn á meðan hressir tónar Primal Scream hljómuðu undir. Svo dugði ekkert annað en að gefa sér góðan tíma í að koma sér fyrir á besta stað í pyttinum á Orange til að sjá TOOL. Þar var á ferð gullmoli hátíðirnar og sviku þeir ekki sína menn með flottu myndsjóvi, eiturþéttri spilamennsku og bestu tónleikum hátíðarinnar (ef ekki þeir bestu tónleikar sem ég hef séð). Birna og Einar fá stóran mínus í kladdann fyrir að koma ekki með í fremstu röð ! Ætlaði að sjá Georg Clinton, afa fönksins, en festist því miður í röðinni á Skiburger sem var einkar illa skipulögð. Deginum því slúttað með síðnæturtónleikum á ensku rokksveitina Amplifier. Mæli hiklaust með að fólk kíki á netið og athugi á þeirri sveit.

Sunnudagurinn hófst með sturtu og snarli áður en kíkt var á lokalög Artic Monkeys, samt ekki alveg mitt dót þar á ferð. Því var rölt yfir að sjá áströlsku retro-rokkarana í Wolfmother. Þar var ég á heimavelli og sveitin gríðar hress og skemmtileg. Placebo voru næstir á planinu og voru hressir og samkynhneigðir með skemmtilega tónleika. Hátíðinni var svo slúttað með mögnuðum tónleikum Pink Floyd hetjunnar Roger Waters. Kallinn var eldhress og í fullu fjöri og rendu í gegnum hvern slagarann á fætur öðrum áður en meistaraverkið Dark Side of the Moon var tekið í heild sinni. Frábær myndsýning, surround sound með auka hátölurum og jónu ilmurinn var leikandi allt í kringum mann. Hiklaust næst bestu tónleikar hátíðarinnar, aðeins litlu skrefi fyrir aftan TOOL. Kvöldinu var svo slúttað með að fylgjast með tjöldum brenna og þræða innkaupa kerru upp á staur áður en haldið var í háttinn að ná sér í smá svefn.

Mánudagurinn fór svo í að vera þunnur og þreyttur að bíða í röð eftir lest, bíða í röð eftir skáp undir bakpoka, þvælast í Köben, bíða í röð eftir tjekk inn, tveggja tíma seinkunn á flugi, bíða í röð til að komast í gegnum gæsluna, fljúga heim og komast í langþráð rúm seint og um síðir. Keldan var þrátt fyrir það frábær og vonast ég til að sjá sem flesta þar á næsta ári !