Wednesday, February 21, 2007

I Only Dream In Black & White

Er fleyg setning úr Iron Maiden slagara. Mig dreymir vanalega aldrei neitt þannig að ég muni sérstaklega eftir. En það hefur hins vegar gerst núna tvisvar undanfarið. Líklega bæði út af röskun á svefn snemma um morgun, annars vegar á mánudaginn þegar einhverjir fóru að bora á ansi hreint kristilegum tíma. Og svo núna miðvikudagsmorgun þegar eldsnemma var einhver vinnuvél að skemmta sér fyrir utan. Bæði skiptin rumskað ég einstaklega pirraður, náði svo að sofna aftur og fékk svo þessa steiktu drauma.

Nr.1
Ég var kominn heim í árshátíðarpásuna. Nema hvað að kokkurinn hafði beilað og ég var beðinn um að elda eitthvað, karrý minnir mig. Þ.a. ég var á fullu spani að æfa fyrir ballið og reyna að redda hráefni í mat. Nema þegar ég var að elda skemmdi einhver matinn og henti honum öllum. Ég fór þá eitthvert út á land að reyna að redda nýju hráefni fyrir veislumatinn, en festist þar af einhverri einkar furðulegri ástæðu, og komst ekkert heim aftur fyrr en seint á sunnudagskvöldinu. Svo vaknaði ég.

Nr.2
Einhverja hluta vegna voru Aerosmith mættir í heimsókn heima úti á nesi. Ekki veit ég af hverju, þar sem ég hlusta ekki beint mikið á Aerosmith að staðaldri. En þarna voru þeir, og við að horfa á einhver steikt og útúrreykt tónlistarmyndbönd við Blue Oyster Cult lög. Svo átti bróðir minn eitthvert safn af Aerosmith tónleikum á VHS og við vorum að spóla í gegnum það að reyna finna einhvern brandara sem Steve Tyler hélt að hann hefði sagt á sviði. Svo vaknaði ég.

Nú geta fróðir menn spreytt sig á að ráða þessa steypu. Eða kannski ekki. Eflaust ekki gott fyrir geðheilsuna ykkar :D

Sunday, February 18, 2007

Tíðindalaust á dönsku vígstöðvunum

Í gær var laugardagur. Daginn áður höfðum við Ketill sótt heim hann Guðjón til að gefa nýbakaðri stúlkunni bangsalegasta bangsa sem við gátum fundið í dótabúðunum (sú leit krafðist 2ja öla), og nýbökuðum föður smá öl. Áttum því ansi hresst og notalegt kvöld þar sem var spjallað við tengdaforeldra Guðjóns, sem voru í heimsókn, borðaðar flødeboller, horft á grínþætti í sjónvarpinu og fengið sér að lokum einn öl á kollegí barnum, sem reyndist reyndar vera stappaður af sótölvuðum Íslendingum sem höfðu verið að spila póker.
Í gær ætlaði ég að vera duglegur og læra. En ég hafði ekki gert ráð fyrir að á allri hæðinni fyrir ofan væri fastelavnsfest (öskudagspartý held ég) og stundvíslega klukkan 22:00 fóru græjurnar í gang og ég var með popp og diskó á fullum styrk inni í herberginu mínu til 06:00 um morguninn. Eina leiðin til að losna við tónlistina og halda sönsum var að setja á mig heyrnatól og spila mitt harðasta pönk -og þungarokk til að yfirgnæfa hinn hávaðan. Þetta olli því að mér tókst aðeins að gera þann kóða í verkefninu sem ég var að vinna að sem krafðist sem minnstrar hugsunar. Lítið svigrúm til einbeitingar. Vona að það sem ég gerði meðan ég hélt enn sönsum muni nýtast eitthvað. Reyndi að brúka eyrnatappa, en það dugði ekki til. Náði svo loks að sofna einhver tíman milli 6 og 7 í morgun. Enda er dagurinn fyrst að komast af viti í gang núna um fjögurleytið.
Annars er líka frá því að segja að Sigrún hefur haldið áfram tilraunum sínum með að lita einstaklega ljósa hárið sitt. Í þetta sinn voru það þjóðfræðinemar sem kvöttu hana til að lita það bleikt til að vekja athygli á málstað þeirra. Afraksturinn má sjá hér:



Vill sérstaklega benda á hvað Sigrún er ánægð með að fá að hafa vaknað þarna snemma eftir að hafa verið eina manneskjan sem var ölvuð, eftir vísindaferð, að spila trivial við 3 edrú njerði nóttina áður. Gleðin skín úr augum hennar. Þessi litagleði hefur líka ollið því að Sigrún er búin að heimta að fá að ráðast á hárið á mér áður en stigið verður á svið á árshátíðinni. Vopnuð hinum ýmsu litum og hárvörum ætlar hún að umbreyta hárinu mínu í nafni jafnréttis. Hvort það mun koma til með að vera rokk eða slys mun koma í ljós (verður líklegast bæði:P). En sama hvernig það fer, þá verður alveg rosalega gaman þá ! Þeim sem langar að mæta, djamma með mér og sjá mig rokka er vinsamlegast bent á að kíkja á spjallsvæði Háskólakórsins.

Monday, February 12, 2007

Gleðileg helgi, langur mánudagur.

Nú á fimmtudaginn kíktu Birna og Einar til Danmerkur og lentu ca. kl 20:00 þar sem ég tók á móti þeim með móttökuskilti og bjór. Það kvöldið fór mest megnis að finna gistipláss þeirra í úthverfi sem heitir Brønshøj, sem tókst að lokum eftir langa strætóferð og mikinn þvæling um hlaðin hús sem litu öll eins út og vöru öll með limgerði. Skóli og verklegt á föstudeginum komu í veg fyrir meiri öflugheit það kvöldið.
Á föstudeginum var svo hitt á Einar niðri í bæ og þaðan farið að versla í matinn. Planið að gera indverskt kjúklingakarrý. Það gekk ekki alveg þrautalaust fyrir sig og þurfti að grípa til ýmissa björgunaraðgerða eins og að skera með dúkahníf, brúka álpappír sem lok og krydda vel með svörtum pipar, eitt af þremur kryddum sem var til á heimilinu, eftir að í ljós kom að tjillíið sem vioð keyptum reyndist vera meira paprikusalt en tjillí. Matnum tókst einhvern veginn að vera ætur, þó þetta hafi ekki beint verið besta karrý sem ég hef gert. Bæði ég og Einar höfðum ekki fattað að borða meira en 3 banana hvor yfir daginn og drekka ósköpin öll af kaffi, svo hvaða matur sem er var vel þeginn. Svo var skemmt sér vel yfir drykkjuleikjum, söngli, kassagítarspili og bæjarferð.
Laugardagurinn var svo nýttur í að kíkja á elstu krá Kaupmannahafnar, Hvidts Vinstue, fá sér sushi á Sticks 'N Sushi á Istergade og skemmta sér meira. Jafnvel of mikið. Ég var alla vega kominn í leiðinlega röflgírinn undir það síðasta. Kannski ekki sniðugur leikur að kaupa Tuborg Gold í búðinni, sem reyndist vera 5.8%
Í þynnkumóki var svo kíkt á nýfædda Gaujadóttur á sunnudeginum. Þaðan var svo kíkt til Kristjaníu að fá sér kvöldmat á Spise Loppen. Maturinn þar töluvert betri en útlitið á staðnum gefur til kynna. Svo var sælan bara úti.
Píndi sjálfan mig á fætur í morgun og dreif mig skólann. Komst þá að því að Torben úr Acoustic Communications frá því fyrir áramót var með gestafyrirlestur um heyrnarskaða, allt dót sem kunni, þ.a. ég hefði alveg getað leyft mér að sofa út. Eftir hádegi tók svo við áframhaldandi vinna í verklegu. Svo skriðið heim rétt eftir sjö með sjoppulega tyrkjapítsu og nettan hausverk eftir langan vinnudag.
We work hard. We play hard.

Wednesday, February 07, 2007

Til hamingju !

Ætla bara að nýta tækifærið til að óska eftir farandi fólki til hamingju:

Gauji og Kristín fá hamingjuóskir hér á netgarði fyrir að hafa fjölgað mannkyninu um einn einstakling. Verður gaman að fá að sjá hana og fylgjast með hvernig Gauja á eftir að farnast í föðurhlutverkinu.

Telma fær líka hamingjuóskir fyrir þann merka árangur að hafa elst um sem nemur einu ári og er því formlega 23 ára í dag. Vona að hún hafi átt góðan afmælisdag.

Fleira var það ekki í bili.

Sunday, February 04, 2007

Gyllt eða fjólublátt ?

Í gær var kórinn með þemapartý. Þemað var liturinn fjólublár. Mig langaði reyndar slatta til að fara, en þar sem eitt stykki rúmhaf og töluvert margir kílómetrar voru á milli mín og partýsins var það ekki alveg í myndinni. Ég kíkti því í heimsókn til Guðjóns, sem er enn að bíða eftir að barnið sitt nenni á fætur og inn í heiminn, og við tókum lítið Austin Powers maraþon með tilheyrandi ølsötri. Sigrún tók þetta hins vegar með trompi og var nógu fjólublá til að dekka okkur bæði, enda var hún valin fjólubláust af öllum. Kom mér meira að segja skemmtilega á óvart hvað fjólubláa lúkkið var að koma sterkt inn. Hér kemur því smá fyrir og eftir svo fólk fái hugmyndir um hvaða áhrif það hefur að vera með fjólublátt hár.

ljóshærð prinsessa:






fjólublár pönkari: