Monday, September 25, 2006

Metal: A Headbangers Journey

Ég var að enda við að horfa á þessa skemmtilegu heimildarmynd eftir metaldúdda sem er master í mannfræði. Drauma mannfræðiverkefnið hans var víst að kanna hvað væri svona spes við þungarokk svo hann gekk í það að gera þessa ansi skemmtilegu heimildarmynd. Mæli hiklaust með að kíkja á hana ef þið hafið annaðhvort gaman af þungarokki eða eruð bara forvitin að vita hvað sé málið. Mig er alla vega farið að langa að hlusta á meira þungarokk en ég hef gert upp á síðkastið :D
Nokkrir punktar:

- Dee Snider hættir aldrei að koma mér óvart með hvað hann er skemmtilegur í viðtölum.
- Að heyra rauðhnakkana í Cannipal Corpse tala um minnkaðar fimmundir og tónlistarfræðina á bakvið þungarokk er fyndið.
- Ronnie james Dio er ekkert smá lítill !!!
- Tom Arya er kaþólikki ... sá ekki fyrir mér að það gæti gengið upp þegar menn eru söngvarinn og bassaleikarinn í Slayer. Guð ku víst ekki hata okkur því Guð hatar ekki. Spurning hvað Kerry King finnst um það (líklega alveg sama þar sem hann var þarna rétt hjá)
- Álit mitt á svartþungarokki batnaði ekkert. Hvernig þessir sauðdrukknu, uppdópuðu og rugluðu Norðmenn með rauðvínssafnið sitt fá það út að kristni hafi verið þvinguð á þá og þeir þurfi að brenna mörg hundruð ára gamlar kirkjur mun ég aldrei skilja. Þyrftu að opna eins og eina sögubók. Engin kristin þjóð í Evrópu hafði nokkurn mátt til að vera þvinga kristni upp á Skandinava fyrir þúsund árum, þeir sáu um það alveg sjálfir að gerast kristnir.

Og örugglega einhver sniðug augnablik sem ég er að gleyma.

Thursday, September 21, 2006

Shai Hulud

Í dag er hljómsveitin Shai Hulud að fara að spila á Íslandi. Þeir gerðu það líka fyrir að ég held 2 árum og þá kíktum við Kalli á tónleika og höfðum frekar mikið gaman af (alla vega ég, held hann líka). Shai Hulud eiga þann heiður að hafa ollið því að ég fór að hlusta á harðkjarnatónlist, en fyrir um 3 árum síðan eða svo lét Kalli mig hafa þrjá diska til að sýna mér hvað harðkjarnapönkmetall væri nú sniðugur. Það var diskur með safn af lögum með Dillinger Escape Plan, Everything You Wanted to Know About Silence með Glasjaw (minnir alla vega að diskurinn hafi heitað það) og safn af lögum með Shai Hulud. Það tók smá tíma að melta þetta en á endanum voru það melódísk gítarriff, hraði og krafturinn í Shai hulud sem gripu mig. Tókst svo aðeins síðar að komast inn í DEP og þaðan yfir í bönd eins og Converge, Botch, Drowningman, Breach, Poison the Well og meira af þesslags dóti sem ég er að gleyma að telja upp í augnablikinu.
Shai Hulud var stofnað í kringum 1995 og er nafnið þeirra komið af risaormunum úr Dune sögum Frank Herbert. Fyrsta platan sem þeir gáfu út var smáskífan A Profound Hatred of Man frá árinu 1997 og innheldur 3 lög, þar meðal hið ofurhressa Soil sem er eitt af mínum uppáhalds Shai hulud lögum ásamt This Wake I Myself Have Stirred af fyrstu breiðskífu þeirra, Hearts Once Nourished With Hope And Compasion sem kom út 1998. Mikið hefur verið um mannabreytingar í bandinu og er aðalgítarleikari þeirra, Matt Fox, sá eini sem hefur verið í bandinu frá upphafi. Bassarleikarinn Matt Fletcher hefur þó einnig verið í bandinu megnið af líftíma þess og sjá Matt-arnir tveir að mestu um að semja lög sveitarinnar. Fyrsti söngvarinn hætti um það leiti sem þeir voru að taka upp fyrstu smáskífuna, en í hann stað kom barkinn Chad Gilbert, og næstu ár var nokkuð um uppstokkanir á mannskap og hætti Gilbert sem söngvari um 2000. Bandið tók þátt í að gefa út slatta af split plötum með hinum og þessum hljómsveitum áður en þeir gáfu sína aðra breiðskífu, That Within Blood Ill Tempered árið 2003.2004 ákvað þriðji söngvari sveitarinnar að segja upp starfi sínu. Þá var ákveðið að taka einn lokatúr áður en bandið myndu hætta og kom Gilbert tímabundið til baka til að taka þátt í túrnum. Það var einmitt á þessum túr sem þeir komu við hérna. Eftir túrinn hætti bandið og héldu Matt & Matt áfram söngvaralausir sem The Warmth of Red Blood. Í mars á þessu ári ákváðu þeir hins vegar að halda áfram undir gamla nafninu, Shai Hulud, með söngvaranum úr Zombie Apocalypse hliðarverkefni þeirra. Svo líður hálft ár og núna eru þeir að fara að spila heima á Íslandi í dag. Svo er spurning hvort það fari þá að koma plata einhvern tíman bráðlega.

Live In Reykjavík

Wednesday, September 20, 2006

Ég á rúm og sófa

Í dag er mðvikudagur. Miðvikudagar eru stærðfræðidagar. Þá er á dagsrká hjá mér fyrirlestur um hlutafleiðujöfnur fyrir hádegi, svo dæmatími, hádegi, annar fyrirlestur um hlutafleiðujöfnur og svo dæmatími til 17:00. Sem sagt hlutafleiðujöfnur frá 9:00 - 17:00. En þegar stærðfræðinni var lokið kíkti ég á heimasíðu Ikea og komst að því að svefnsófinn sem ég hafði skoðað í búðinni í síðustu viku, og var ekki til á lager þá, var kominn aftur á lager. Þá var bara strax skundað með strætó til Ikea og eftir smá leit á lagernum, vopnaður lista sem starfskona Ikea lét mig hafa, var ég búinn að fjárfesta í þessu fína rúmi/sófa. 2 tímum síður kom svo heimsendingarbílinn með það að íbúðinni hans Óla á Øresundskollegi. Vopnaður sexkant tók ég mig svo til og smellti rúminu saman meistaralega. Sænsk húsgögn eiga sko ekkert í lagni mína með einföld verkfæri eins og sexkant og skrúfjárn. Á morgun þarf ég svo ekki að vakna snemma til að ná lest í skólann og get því leyft mér að sofa út á nýju rúmmi. Eintóm gleði :D

Tuesday, September 19, 2006

Stundum er erfitt að vakna á morgnanna

Í dag var svoleiðis dagur. Vaknaði kl 6 í morgun við það að einhver staðar í húsinu var vekjaraklukka að missa sig og enginn að slökkva á henni. Ég átti að mæta kl 8:30 í skólann svo síminn var stilltur á að vekja mig klukkan 7. Náði nokkrum auka mínútum af svefn áður en hann fór af stað. Langaði mikið að halda áfram að sofa, en píndi mig á lappir og maulaði skál af kornflögum áður en haldið var út og í átt að strætóstoppinu. úti var öll umferðin í skralli og strætóarnir komust hægt áfram og voru alltaf fullir þegar þeir loksins komu svo ég neyddist til að gefa strætóinn upp á bátinn og labba rösklega að næsta Metro (neðjarðarlestin) stöð. Þegar Metroið var búið að skila mér á Nørreport kom á daginn að tölvukerfið sem stýrði lestunum var í skralli og þær því í tómu tjóni. Þá var ekkert annað að gera en að troða sér í þvöguna sem vildi komast í strætóinn í átt að DTU. 30 mín af stappaðri strætóferð síðar var ég svo loksins kominn í skólann og tókst að mæta aðeins 15 mín of seint í tíma með svart kaffi í pappaglasi við hönd. Fólk var svo týnast inn í stofuna fyrsta klukkutíman svo ég var greinilega ekki einn um að eiga myglaðan morgun.
Fékk svo líka Office Space atvik þegar ég ætlaði að prenta mér glósur en prentari var alltaf að stífla sig og heimta með jöfnu millibili að ég reddaði því. Prentarar sem virka ekki eru með mest óþolandi hlutum sem til eru, ásamt faxtækjum, ljósritunarvélum og C++ forritum.
En, núna er ég búinn að ná að leggja mig í klukktíma, fara í sturtu og orðinn hress. Á morgun kemur nýr dagur og hann getur ekki annað en verið minna myglaður en dagurinn í dag. Kannski að Ikea verði jafnvel búið fá aftur dýnur fyrir svefnsófa svo ég geti eignast rúm og bjargað sjálfum mér frá baktengdri örorku :D

Tuesday, September 12, 2006

Ævintýri Þóris

í gær hóf ég að æfa Taekwondo í Danmörku. Ég er þess eðlis að ég verð bara að fá að hreifa mig reglulega og því varð fyrir valinu taekwondo klúbbur sem er tiltölulega nálægt skólanum upp í sveitinni Lyngby. Björn ákvað að slást með í för þar sem honum fannst hann vanta hreyfingu og með kort að vopni var haldið af stað að leita. Ákváðum að gefa okkur góðan tíma og tókum því strætó klukkutíma áður en æfingin átti að byrja. Kl 18:10 að dönskum tíma fórum við út á stoppi sem heitir Virum station (Virum úthverfi í Lyngby) og hófum að rölta í það sem við töldum vera rétta átt. Hins vegar var kortabókin ekki með þetta sveitahverfi á sínu prenti og við því ekki vissir hvort við værum að fara í rétta átt. Hófum því að rölta til baka og komum við á bensínstöð þar sem Björn spurði afgreiðslustúlkuna til vegar (Björn með reynslu af nokkura mánaða vist í kollegi með sameiginlegu eldhúsi talar aðeins betri dönsku en ég). Hún reyndist ekki vita mikið meira um svæðið en við, en hafði aðgang að stærri kortabók, svo okkur tókst að komast að því að við höfðum verið að fara í rétta átt eftir allt saman. Rölt aftur til baka og loks komið að gatnamótum sem við vissum að við áttum að beygja á, en ekki í hvora áttina. Við tókum að sjálfsögðu vitlausa beygju til að byrja með og þurftum að rölta aftur að gatnamótunum og taka hina beygjuna áður en við loksins fundum skólann. Þá var klukkan orðin 18:57. Taekwondo klúbburinn var lítill, hress og vinalegur og við tóku 2 tímar (jebb, æft frá 19 - 21) af hlaupum, spörkum, höggum, armbeygjum, magaæfingum, hoppum, tækniæfingum, fleiri armbeygjum, almennu sprikli og teygjum. Sjaldan liðið jafnvel og eftir þessi átök og Björn einnig hinn ánægðasti, þ.a. ég er kominn með 2 - 3 æfingar í viku af taekwondo og svo körfubolti einu sinni í viku líka. Mín íþróttamál á hreinu. Hins vegar var mér tilkynnt það í dag á skrifstofu stúdentagarðanna hérna að ég eigi ekkert von á að fá inn á stúdentagarð fyrr en í fyrsta lagi eftir 2 - 4 mánuði, svo ég verð víst að fara að finna mér heimili á almennum markaði. Vonandi að ég finni eitthvað kósí sem kostar ekki bæði hönd og fót (hef talsverð not af útlimunum mínum). Krosslegið puttana fyrir mig.

Friday, September 08, 2006

Kominn með danskan síma !

Ef þið þurfið að ná í mig meðan ég er í Danmörku, þá er bara að slá inn +45 2650 1796 og ég mun svara hress á hinni línunni.

Matarhornið - Kabli Chane

Þar sem ég er núna kominn á það stig í mínu lífi að þurfa að láta námslán duga fyrir leigu, mat, síma, bjór og ýmsu öðru ætla ég að henda hér inn uppskrift að indversku grænmetiskarrý frá austanverðu Indlandi sem er bæði virkilega gott á bragðið, inniheldur flest nauðsynleg næringarefni og dugar til að fæða 4 manneskjur fyrir ca. 500 - 600 kr kostnað, þ.e. ef menn eiga til kryddin (annars er startkostnaðurinn af þeim aðeins meiri, en þau endast líka ansi lengi).

250g kjúklingabaunir
800ml lítrar af vatni
2 stórir laukar
dós af söxuðum tómötum
biti af ferskri engiferrót
1 grænn chillí pipar (má sleppa honum)
1-2 hvítlauksrif
1 tsk salt
1 tsk mulið cumin
1 og 1/2 tsk mulin kóríander
1/2 tsk turmeric
1/2 tsk chillí duft
1 tsk garam masal kryddblanda
matskeið af kóríander laufum

Byrjið á því að setja baunirnar í bleyti daginn fyrir. Látið svo vatnið leka af þeim og sjóðið í vatninu með saltinu í ca. 50 mín.
Þegar baunirnar eru búnar að fá að sjóða í ca. 30 mín skulu þið saxa fínt laukinn, engiferið, hvítlauk og chillí. Hitið pönnuna og steikið við meðalhita þar til laukurinn er farinn að verða mjúkur og aðeins brúnn. Setjið yfir kryddinn og salt eftir smekk og steikið í ca. 1 mín (hræra vel á meðan) og hellið svo yfir söxuðu tómötunum. Leyfið þessu að malla í nokkrar mínútur þ.a. tómatarnir verði að mauki. Þegar baunirnar eru búnar að fá að sjóða skuluð þið setja karrýsósuna út í pottinn með baununum og vatninu, hrærar vel saman, setja lok yfir og leyfa því að malla við lágan hita í minnst 10 mínútur. Gott er að leyfa því að malla í alveg 30 - 45 mín svo baunirnar taki í sig bragðið og sósan verði sem þykkust. Hrærið svo að lokum saman við þetta garam masal kryddblöndunni og kóríanderlaufunum og berið fram með grjónum og/eða naan brauði.

Wednesday, September 06, 2006

Almenningssamgöngum í Danmörku er illa við mig !

Já, í dag eyddi ég 3 klukkutímum í lest og strætóferðir, sem mér finnst ekkert voðalega skemmtilegt. Byrjaði á því að fyrsti strætóinn sem ég ætlaði að taka um morguninn lokaði á mig og fór. Næsti á eftir var fullur og keyrði bara framhjá. Olli því að ég var góðan klukkutíma á leiðinni í skólann. Í skólanum tók við dagur af hlutafleiðujöfnum, kaffidrykkju og vondum mat úr mötuneitinu. Skylst að þar sé víst sjaldan eitthvað ætt að borða, þarf að fara að smyrja. Svo átti að fara að koma sér heim og stússast, en lestakerfið var í einhverju hönki og lestarnar voru ekkert að komast áfram sem olli því að það tók mig um 90 mín að komast á aðalbrautarstöðina í staðinn fyrir þessar venjulegu 20 mín. Var sem betur fer með ipodinn með mér svo ég gat hlustað á eina og hálfa plötu meðan ég beið.
Svo tapaði Ísland 2 - 0 fyrir Dönum !!!
Aldrei séð jafnlélega vörn, og það var bein útsending af stemningunni frá sportbarnum þar sem ég var. Niðurlæging dagsins fullkomnuð :(
En á morgun kemur nýr dagur sem verður vonandi hressari og landsliðið verður bara að drullast til að þétta vörnina, nýta dauðafærin og vinna næsta leik !!!

Sunday, September 03, 2006

Fluttur að heiman

Þennan dag, hinn 3 sept 2006, hefur átt sér stað hinn merkilegi atburður að Þórir Hrafn Harðarson er fluttur að heiman 24 ára gamall. Frónn hefur verið kvaddur og ég sestur hér að í svínakjötsparadísinni Danmörku næstu tvö árinn, fyrir utan að maður kemur heim þegar það er haustfrí, og jólafrí, og vorfrí, og páskafrí, og sumarfrí. Sem sagt hálft árið verður mar hér í Köben og hálft heima. Ég er þá líklega bara hálfnaður með það að flytja að heiman ? En það er alla vega ágætis skref, sérstaklega fyrir jafn heimakæran einstakling eins mig.