Sunday, October 29, 2006

Roadtrip og HAMingja

Aðfaranótt síðasta miðvikudags tókst mér ekki að sofa neitt um nóttina. Það var svona verra þar sem kl 7 um morguninn átti ég að vera mættur upp í Lyngby þar sem okkar biðu bílaleigubílar sem átti að nota til að keyra um Jótland í boði DTU og heimsækja bæði Álaborgarháskóla og Bang & Olufsen. Keyrt var af stað og ferja tekin til Jótlands og svo keyrt áfram til Álaborgar þar sem við fengum vondar samlokur með lifrakæfu og súrgúrkum. Síðan var skoðað námskerfið í skólanum. Þar byggir allt á hópverkefnum. Þú ferð í einhverja fyrirlestra um fræði og gerir svo eitt stórt hópverkefni þar sem þú átt að þurfa að nýta þér fræðina úr fyrirlestrunum og byggist lokaeinkunin þín á niðurstöðum úr verkefninu og spurningum um það sem þú þarft að svara. Mastersverkefnið hjá þeim yfirleitt líka hópverkefni. Væri alveg sniðugt að gera eitt svona verkefni, en ég myndi ekki nenna að hafa allt námið mitt svona. Auk þess grunar mig að mann muni aðeins skorta í fræðilegum grunni. Skoðuðum líka rannsóknarverkefni hjá þeim eins og t.d. 3D hljóð og heyrnaskaða af völdum heyrnatóla, svo eitthvað sé nefnt. Þar var svefnleysið farið að segja svolítið til sín og stundum erfitt að halda sér vakandi í rannsóknarherbergjum með þungt loft. Að túrnum loknum fengum við svo ávexti og bjór, áður en haldið var af stað að finna hostelið okkar. Um kvöldið var svo matur og djamm með skólafélögunum og eins og sönnum Íslendingi sæmir var ég að sjálfsögðu með síðasta fólki heim, kominn í bólið um 4 leytið. Hafði þá verið vakandi í ca. 40 tíma. Fékk rétt rúmlega 4 tíma svefn áður en ég þurfti að vakna og haldið var af stað til Bang & Olufsen. Smá svefn í bílnum bjargaði miklu og í Bang & Olufsen fékk maður að sjá t.d. Heimabíó kerfi sem kostar 5 milljónir, hljóðprufunarherbergi, Audi með innbyggðum ofurgræjum og annað svalt. Þeir gáfu okkur líka fullt að borða, var vel sáttur með það. Ég mátti samt ekki fá magnara og hátalarakeilu, það var smá bömmer. Væri ekki leiðinlegt að vinna þarna, ef fyrirtækið væri ekki staðsett í smábæ á miðju Jótlandi. 11 um kvöldið var maður svo loksins kom heim, þreyttur, eftir skemmtilega ferð.
Á laudardaginn fékk ég svo loksins að sjá HAM eftir miklar tilraunir. Allt er þegar þrennt er. Þeir voru hressir og þéttir og renndu í gegnum sína helstu slagara, ásamt einu og einu nýju lagi. Allir í svörtum jakkafötum, nema Óttar sem var í hvítu, með sítt hár og skallablett. Fór svo úr að ofan, grindhoraður og með girt næstum upp á nafla. Fengu því miður bara að spila í tæpan klukkutíma þar sem þetta var 5 hljómsveita dæmi.
Allt í allt ágætis vika, þó svefninn hefði mátt vera minna slitróttur.
Sjáum hvað sú næsta ber í skauti sér.

Tuesday, October 24, 2006

Metalocalypse

Þetta eru opinberlega orðnir nýju uppáhalds þættirnir mínir. Langar að komast yfir metal kaffi-jingúlið ! Tjekk it át:

Metalapocalypse: The Curse Of Dethklokk

Sunday, October 15, 2006

Svo þú heldur að þú kunnir að dansa ?

Nei, ég held ekki neitt, veit vel að ég kann lítið fyrir mér á því sviði. Kíkti með vinum (meira vinkonum) á salsakvöld á Cafe Cultura í gær. Þar var fullt af fólki sem fetti sig og beygði við salsa taktinn og var með þetta á hreinu. Ég gerði loks eftir smá öldrykkju heiðarlegar tilraunir en, eins og flestir norður germanskir karlmenn, þá fékk ég nú ekki dansgen í vöggugjöf. Ég væri þó alveg til í að kunna eitthvað að dansa, lúkkar soldið kúl að geta gert sig að nafla alheims á dansgólfinu. Geri það kannski að verkefni framtíðarinnar að ef ég einhvern tíman eignast kærustu að draga hana á námskeið. Hver veit, ég gæti jafnvel verið búinn að læra grunnsporin áður en ég verð 37 ára.

Sunday, October 08, 2006

Reif í tólið

Hver man ekki eftir árunum 1995 - 1997 þegar teknó var heitara á Íslandi en steikt slátur ? Þá hlustaði ég á teknó og við vinirnir áttum ófáa rúnta á litlu súkkunni hans Atla að blasta Prodigy, en Atli átti einn og hvern einasta disk sem þeir höfðu gefið út. Gunni átti líka risa safn af teknó/drum&bass sem er núna týnt. Í gær var nelgdur síðasti naglinn í teknósögu minni þegar ég kíkti í Rave-partý í yfirgefinni lestarskemmu í Køben. Ég, Gaui og Ketill vorum að hanga í eldhúsinu á hæðinni hans Ketils á Grønjords kollegi þegar félagi hans gengur inn og bendir á það sé rave-partý niðrí bæ og hvort okkur langi ekki að kíkja. Enginn okkar hafði farið á slíkt og því var ákveðið að skella sér. En fyrst þurfti að komast þangað og upphófst þá leit að hjólum fyrir utan kollegíið. Þar voru engin citybike og engin hjól í lagi sem höfðu verið skilin eftir. Tókum þá lestina upp á Nørreport og fundum þar í kring 2 stk citybike og eitt bilað hjól sem við smelltum aftur á keðjunni. Þá var bara að finna skemmuna. Hjólatúr og símtali síðar vorum við komnir á staðinn og eftir smá príl og rölt um myrkvaða ganga mátti sjá hvar það var búið að setja upp hljóðkerfi og fólkið skoppaði um meðan sami teknótakturinn ómaði í nokkrar mínútur áður en nýr taktur fór í spilun við fönguð skoppenda. Á staðnum voru krakkar að selja bjórdósir og orkudrykk með vodka. Röðin töluvert mikið styttri í bjórröðina sem hentaði okkur ágætlega. Þannig að, þarna stóðum við í nokkurn tíma og sötruðum nokkra bjóra og tókum inn teknómenninguna. En ég er greinilega orðinn gamall, eða kannski var teknó aldrei mitt dót. En þetta er sniðug hugmynd að nýta svona rosa húsnæði í eitthvað skemmtilegt, hefði bara verið meira mitt kaffi ef þetta hefðu verið pönkrokkhljómsveitir að spila 1-2 mínútna löng lög með 3 gripum, eða sækadeligg stónerrokk. Vil sjá svoleiðis menningu komast í gang heima ! Svo fór maginn að kalla og niðrí í miðbæ fundum við kebab og svo strætó heim. Þannig að núna get ég sagts hafa farið í rave-partý.

Thursday, October 05, 2006

Af Finnum og Færeyjingum

Í gær kíkti ég á fyrstu þungarokkstónleikana mína í Køben þegar ég kíkti að sjá Týr. Það hafði eitthvað lið ákveðið að vera drukkið og með læti nóttina áður svo ég var ekkert voðalega vel sofinn og ákvað því að fá mér smá blund eftir skóladaginn svo maður myndi hafa einhverja orku afgangs um kvöldið. Um 17:55 vaknaði ég við símhringingu frá honum Juha Holm, finnska félaga mínum úr DTU sem ég ætlaði að hitta á tónleikunum, en hann var með vini sína frá Finnlandi í heimsókn og langaði að athuga hvort ég hefði áhuga á að borða með þeim og fá mér fordrykk. Ég dreif mig þá á lappir eftir ca. klukkutíma blund, skellti mér í sturtu, skellti í mig einum Red Bull og rölti af stað í Metróið. 5 mín Metróferð og nokkra mínútna rölti um Strikið síðar var ég svo búinn að finna Finnana og við drifum okkur í að kaupa okkur 0.75 cl bjóra og aðgang að hlaðborði sem var á veitingastaðnum. Juha og vinir hans, annar Juha og stelpa að nafni Miin (alla vega borið fram mín, veit ekki hvernig það er skrifað), eru eins og flestir Finnar sem ég hef spjallað við, mikið áhugafólk um þungarokk, Miin meðal annars bassaleikari í dauðarokksbandi í Finnlandi (af hverju eru 90% stelpna í hljómsveitum bassaleikarar ???). Það var því mikið spjallað um þungarokk, land og þjóð á Íslandi og land og þjóð í Finnlandi. Eftir eitt stykki Baileyskaffi í eftirrétt var svo haldið af stað á The Rock, sem ku vera stærsti rokkbarinn í Køben, og drógu Finnarnir þá upp úr tösku gin & tónik til að halda okkur mjúkum fyrir tónleikana. The Rock er síðan svo sniðugur bar að þar er bjór seldur í 1.5 L könnum á 99 DKK. Það sem átti upphaflega að vera rólegt tónleikakvöld var því hratt og örugglega að breytast í mesta partý sem ég hef komist í síðan ég kom til Køben. Fyrst á svið var dönsk þjóðlagagrúppa sem spilaði miðaldartónlist. Alveg ágætis band til að byrja kvöldið á og hlusta meðan nokkrum könnum af øli var slátrað. Ég passaði mig að sjálfsögðu á að vera landi og þjóð til sóma og setja gott fordæmi í ølþambinu. Spjallaði einnig við nokkra heiðna Dani sem sátu á sama borði og við og komst að því að það eru um 2000 ásatrúamenn í Danmörku. Held það séu um 1000 á Íslandi þ.a. við erum greinilega aðeins meira heiðinn hlutfallslega. Næstir á svið voru Holmgang, frekar einhæf og óspennandi dauðarokkssveit sem var alla vega ekki að gera mikið fyrir mig. Týr liðar stigu svo á svið á eftir þeim í hringabrynjuvestum og með þórshamra um hálsinn. Þeir voru ansi hreint vel spilandi og eiga alveg þó nokkur skemmtileg lög, sérstaklega þá þau sem þeir syngja á færeysku. Hafði bara þó nokkuð gaman af þeim og var slagarinn vinsæli Ormurinn Langi spilaður í uppklappi. Eftir að Týr voru búnir var þá haldið af stað að finna bar sem væri opinn. Rákumst þar á danska stelpu sem ákvað að gerast vinur okkar, fann fyrir okkur bar með ódýrum bjór og keypti handa okkur umgang áður en kærastinn hringdi í hana og hún þurfti skyndilega að fara. Böggaði okkur ekkert þar sem við græddum fríkeypis bjór. Henni tókst samt einhvern veginn að sjá það út að ég væri Íslendingur á augunum á mér, vissi ekki að við Íslendingar værum með einkennandi augu ? Svo var rölt á Andy's bar og síðasta bjór kvöldsins slátrað. Eftir það tók við nokkuð kostuleg heimferð hjá mér þar sem ég þvældist um Køben í leit að næturstrætó sem myndi fara með mig á kollegíið. Fann meðal annars eitthvað hjólhræ með engum ljósum og frekar vafasömum bremsum sem ég notaði til að flýta för minni. Fann svo loksins strætó númer eftir ágætis hjólatúr N81 sem fór með mig heim.
Vaknaði svo skelþunnur í morgun um 11:30, verslaði þynnkumat á McDonalds og dreif mig upp í skóla til að gera eitt stykki verklega æfingu sem fól í sér að hlusta á alls konar tóna og suð í heyrnatólum. Hafði svo því miður ekki heilsu til að fara á Taekwondo æfingu. En það er víst gjaldið sem líkaminn þarf að borga þegar það er of mikið fjör daginn áður.