Sunday, October 08, 2006

Reif í tólið

Hver man ekki eftir árunum 1995 - 1997 þegar teknó var heitara á Íslandi en steikt slátur ? Þá hlustaði ég á teknó og við vinirnir áttum ófáa rúnta á litlu súkkunni hans Atla að blasta Prodigy, en Atli átti einn og hvern einasta disk sem þeir höfðu gefið út. Gunni átti líka risa safn af teknó/drum&bass sem er núna týnt. Í gær var nelgdur síðasti naglinn í teknósögu minni þegar ég kíkti í Rave-partý í yfirgefinni lestarskemmu í Køben. Ég, Gaui og Ketill vorum að hanga í eldhúsinu á hæðinni hans Ketils á Grønjords kollegi þegar félagi hans gengur inn og bendir á það sé rave-partý niðrí bæ og hvort okkur langi ekki að kíkja. Enginn okkar hafði farið á slíkt og því var ákveðið að skella sér. En fyrst þurfti að komast þangað og upphófst þá leit að hjólum fyrir utan kollegíið. Þar voru engin citybike og engin hjól í lagi sem höfðu verið skilin eftir. Tókum þá lestina upp á Nørreport og fundum þar í kring 2 stk citybike og eitt bilað hjól sem við smelltum aftur á keðjunni. Þá var bara að finna skemmuna. Hjólatúr og símtali síðar vorum við komnir á staðinn og eftir smá príl og rölt um myrkvaða ganga mátti sjá hvar það var búið að setja upp hljóðkerfi og fólkið skoppaði um meðan sami teknótakturinn ómaði í nokkrar mínútur áður en nýr taktur fór í spilun við fönguð skoppenda. Á staðnum voru krakkar að selja bjórdósir og orkudrykk með vodka. Röðin töluvert mikið styttri í bjórröðina sem hentaði okkur ágætlega. Þannig að, þarna stóðum við í nokkurn tíma og sötruðum nokkra bjóra og tókum inn teknómenninguna. En ég er greinilega orðinn gamall, eða kannski var teknó aldrei mitt dót. En þetta er sniðug hugmynd að nýta svona rosa húsnæði í eitthvað skemmtilegt, hefði bara verið meira mitt kaffi ef þetta hefðu verið pönkrokkhljómsveitir að spila 1-2 mínútna löng lög með 3 gripum, eða sækadeligg stónerrokk. Vil sjá svoleiðis menningu komast í gang heima ! Svo fór maginn að kalla og niðrí í miðbæ fundum við kebab og svo strætó heim. Þannig að núna get ég sagts hafa farið í rave-partý.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home