Thursday, October 05, 2006

Af Finnum og Færeyjingum

Í gær kíkti ég á fyrstu þungarokkstónleikana mína í Køben þegar ég kíkti að sjá Týr. Það hafði eitthvað lið ákveðið að vera drukkið og með læti nóttina áður svo ég var ekkert voðalega vel sofinn og ákvað því að fá mér smá blund eftir skóladaginn svo maður myndi hafa einhverja orku afgangs um kvöldið. Um 17:55 vaknaði ég við símhringingu frá honum Juha Holm, finnska félaga mínum úr DTU sem ég ætlaði að hitta á tónleikunum, en hann var með vini sína frá Finnlandi í heimsókn og langaði að athuga hvort ég hefði áhuga á að borða með þeim og fá mér fordrykk. Ég dreif mig þá á lappir eftir ca. klukkutíma blund, skellti mér í sturtu, skellti í mig einum Red Bull og rölti af stað í Metróið. 5 mín Metróferð og nokkra mínútna rölti um Strikið síðar var ég svo búinn að finna Finnana og við drifum okkur í að kaupa okkur 0.75 cl bjóra og aðgang að hlaðborði sem var á veitingastaðnum. Juha og vinir hans, annar Juha og stelpa að nafni Miin (alla vega borið fram mín, veit ekki hvernig það er skrifað), eru eins og flestir Finnar sem ég hef spjallað við, mikið áhugafólk um þungarokk, Miin meðal annars bassaleikari í dauðarokksbandi í Finnlandi (af hverju eru 90% stelpna í hljómsveitum bassaleikarar ???). Það var því mikið spjallað um þungarokk, land og þjóð á Íslandi og land og þjóð í Finnlandi. Eftir eitt stykki Baileyskaffi í eftirrétt var svo haldið af stað á The Rock, sem ku vera stærsti rokkbarinn í Køben, og drógu Finnarnir þá upp úr tösku gin & tónik til að halda okkur mjúkum fyrir tónleikana. The Rock er síðan svo sniðugur bar að þar er bjór seldur í 1.5 L könnum á 99 DKK. Það sem átti upphaflega að vera rólegt tónleikakvöld var því hratt og örugglega að breytast í mesta partý sem ég hef komist í síðan ég kom til Køben. Fyrst á svið var dönsk þjóðlagagrúppa sem spilaði miðaldartónlist. Alveg ágætis band til að byrja kvöldið á og hlusta meðan nokkrum könnum af øli var slátrað. Ég passaði mig að sjálfsögðu á að vera landi og þjóð til sóma og setja gott fordæmi í ølþambinu. Spjallaði einnig við nokkra heiðna Dani sem sátu á sama borði og við og komst að því að það eru um 2000 ásatrúamenn í Danmörku. Held það séu um 1000 á Íslandi þ.a. við erum greinilega aðeins meira heiðinn hlutfallslega. Næstir á svið voru Holmgang, frekar einhæf og óspennandi dauðarokkssveit sem var alla vega ekki að gera mikið fyrir mig. Týr liðar stigu svo á svið á eftir þeim í hringabrynjuvestum og með þórshamra um hálsinn. Þeir voru ansi hreint vel spilandi og eiga alveg þó nokkur skemmtileg lög, sérstaklega þá þau sem þeir syngja á færeysku. Hafði bara þó nokkuð gaman af þeim og var slagarinn vinsæli Ormurinn Langi spilaður í uppklappi. Eftir að Týr voru búnir var þá haldið af stað að finna bar sem væri opinn. Rákumst þar á danska stelpu sem ákvað að gerast vinur okkar, fann fyrir okkur bar með ódýrum bjór og keypti handa okkur umgang áður en kærastinn hringdi í hana og hún þurfti skyndilega að fara. Böggaði okkur ekkert þar sem við græddum fríkeypis bjór. Henni tókst samt einhvern veginn að sjá það út að ég væri Íslendingur á augunum á mér, vissi ekki að við Íslendingar værum með einkennandi augu ? Svo var rölt á Andy's bar og síðasta bjór kvöldsins slátrað. Eftir það tók við nokkuð kostuleg heimferð hjá mér þar sem ég þvældist um Køben í leit að næturstrætó sem myndi fara með mig á kollegíið. Fann meðal annars eitthvað hjólhræ með engum ljósum og frekar vafasömum bremsum sem ég notaði til að flýta för minni. Fann svo loksins strætó númer eftir ágætis hjólatúr N81 sem fór með mig heim.
Vaknaði svo skelþunnur í morgun um 11:30, verslaði þynnkumat á McDonalds og dreif mig upp í skóla til að gera eitt stykki verklega æfingu sem fól í sér að hlusta á alls konar tóna og suð í heyrnatólum. Hafði svo því miður ekki heilsu til að fara á Taekwondo æfingu. En það er víst gjaldið sem líkaminn þarf að borga þegar það er of mikið fjör daginn áður.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home