Sunday, October 29, 2006

Roadtrip og HAMingja

Aðfaranótt síðasta miðvikudags tókst mér ekki að sofa neitt um nóttina. Það var svona verra þar sem kl 7 um morguninn átti ég að vera mættur upp í Lyngby þar sem okkar biðu bílaleigubílar sem átti að nota til að keyra um Jótland í boði DTU og heimsækja bæði Álaborgarháskóla og Bang & Olufsen. Keyrt var af stað og ferja tekin til Jótlands og svo keyrt áfram til Álaborgar þar sem við fengum vondar samlokur með lifrakæfu og súrgúrkum. Síðan var skoðað námskerfið í skólanum. Þar byggir allt á hópverkefnum. Þú ferð í einhverja fyrirlestra um fræði og gerir svo eitt stórt hópverkefni þar sem þú átt að þurfa að nýta þér fræðina úr fyrirlestrunum og byggist lokaeinkunin þín á niðurstöðum úr verkefninu og spurningum um það sem þú þarft að svara. Mastersverkefnið hjá þeim yfirleitt líka hópverkefni. Væri alveg sniðugt að gera eitt svona verkefni, en ég myndi ekki nenna að hafa allt námið mitt svona. Auk þess grunar mig að mann muni aðeins skorta í fræðilegum grunni. Skoðuðum líka rannsóknarverkefni hjá þeim eins og t.d. 3D hljóð og heyrnaskaða af völdum heyrnatóla, svo eitthvað sé nefnt. Þar var svefnleysið farið að segja svolítið til sín og stundum erfitt að halda sér vakandi í rannsóknarherbergjum með þungt loft. Að túrnum loknum fengum við svo ávexti og bjór, áður en haldið var af stað að finna hostelið okkar. Um kvöldið var svo matur og djamm með skólafélögunum og eins og sönnum Íslendingi sæmir var ég að sjálfsögðu með síðasta fólki heim, kominn í bólið um 4 leytið. Hafði þá verið vakandi í ca. 40 tíma. Fékk rétt rúmlega 4 tíma svefn áður en ég þurfti að vakna og haldið var af stað til Bang & Olufsen. Smá svefn í bílnum bjargaði miklu og í Bang & Olufsen fékk maður að sjá t.d. Heimabíó kerfi sem kostar 5 milljónir, hljóðprufunarherbergi, Audi með innbyggðum ofurgræjum og annað svalt. Þeir gáfu okkur líka fullt að borða, var vel sáttur með það. Ég mátti samt ekki fá magnara og hátalarakeilu, það var smá bömmer. Væri ekki leiðinlegt að vinna þarna, ef fyrirtækið væri ekki staðsett í smábæ á miðju Jótlandi. 11 um kvöldið var maður svo loksins kom heim, þreyttur, eftir skemmtilega ferð.
Á laudardaginn fékk ég svo loksins að sjá HAM eftir miklar tilraunir. Allt er þegar þrennt er. Þeir voru hressir og þéttir og renndu í gegnum sína helstu slagara, ásamt einu og einu nýju lagi. Allir í svörtum jakkafötum, nema Óttar sem var í hvítu, með sítt hár og skallablett. Fór svo úr að ofan, grindhoraður og með girt næstum upp á nafla. Fengu því miður bara að spila í tæpan klukkutíma þar sem þetta var 5 hljómsveita dæmi.
Allt í allt ágætis vika, þó svefninn hefði mátt vera minna slitróttur.
Sjáum hvað sú næsta ber í skauti sér.

1 Comments:

Blogger Jon Olafur said...

Þessi verður ekki svefnmeiri því þú munt vera perufullur með okkur Gauta

7:33 AM  

Post a Comment

<< Home