Friday, April 29, 2005

Sveitt hjólahýsarokk, beint frá suðurríkjunum !

Miðvikudaginn 27 apríl fór ég á tvenna tónleika. Annars vegar var það klassík í Salnum í Kópavogi þar sem Helgi Heiðar spilaði fagra tóna á píanó í tilefni þess að hann er að útskrifast. Seinna um kvöldið var svo kíkt á Grandrokk þar sem trukkarokkararnir í Alabama Thunderpussy gáfu manni grúvið beint í æð, ekki verra þar sem próf eru nú á næsta leiti. Smá bið var nú eftir þessu samt, Brain Police byrjuðu ekki að hita upp fyrr en um 11 leytið, ekki 10 eins og dagskrá gaf til kynna. Fannst nýji gítarleikarinn þeirri ekki alveg vera passa útlitslega séð í bandíð. Ekkert sítt hár, ekkert skegg og engin bumba. Hann gat samt alveg spilað og örugglega ekki lengi að bíða áður en hann fer að hefja söfnun á líkamshárum. Einnig hafði ég gaman af trommusólóni hjá Brain Police eftir áskorun frá öðrum gítarleikara Thunderpussy. Suðurríkjamennirnir drifu sig svo beint á sviðið eftir Brain Police og hófu að rokka. Grúvið og krafturinn var alls ráðandi og stóðu liðsmenn sig flest allir mjög vel við að skila svitarokkinu, helst að bassaleiknum hafi aðeins verið ávant. Gítarleikarnar komu á köflum með ansi skemmtilegar gítarharmóníur í anda Thin Lizzy og eitt laganna sem þeir tóku af sinni nýjustu plötu,Three Stars af Fulton Hill, hljómaði skemmtilega eins og Lynyrd Skynyrd á sterum. Söngvarinn var alveg sér kafli út fyrir sig, sjaldan litið jafn ófrýnilegan mann augum. Hann gæti eflaust fengið fasta vinnu við það leika varúlf í kvikmyndum. En hann skilaði sínu mjög vel og skipti áreynslulaust úr melódískri viskírödd yfir í kraftmikið úlfaöskur eftir þörfum. Ég var alla vega mjög sáttur við mitt, fínir tónleikar og komu manni í góðan gír fyrir próflesturinn. Hjá barnum hékk skilti sem á stóð "Please buy stuff, band is poor", því kom nú ekki annað til greina en að styrkja drengina og verslaður var einn bolur og einn diskur á þúsund kall stykkið hvort.

Hljómsveitin Alabama Thunderpussy er stofnuð árið 1996, en þó ekki í Alabama, af trommaranum Bryan Cox og gítarleikarnum Erik Larson. Þeirra fyrsta plata kemur út á árinu 1998 og heitir Rise Again. Henni fylgu þeir eftir með River City Revival árið 1999 og um sumarið túrað um Evrópu með hinni fínu þungarokkssveit High On Fire. Ýmsar mannabreytingar hafa verið hjá þeim en núverandi sólógítarleikar, Ryan Lake, og bassaleikari, John Peters, gengu til liðs við bandið árið 2000. Ný vídd fékkst þá í bandið og Thin Lizzy gítarharmóníurnar farnar að koma til sögunar. Ferskir með nýjan mannskap gefa þeir svo út diskana Constellation árið 2000 og Staring at the Divine árið 2001, með einkar smekklegan nakinn engil á plötuumslaginu, áður en upprunalegur söngvari sveitarinnar, Johnny Throckmorton, ákveður að yfirgefa hana. Þeir fá þó fljótlega úlfmanninn John Weils til að þjena raddböndin í staðinn, og voru þar örugglega komnir með betri söngvara af eitthvað er. Í fyrra gáfu þeir svo út plötuna Fulton Hill og var henni fylgt eftir með miklum túr sem endaði hér á klakanum okkar.

Wednesday, April 20, 2005

TOOL

Sumarið 2001 var ég að vinna í einni af mínum mörgu "spennandi" sumarvinnum. Í þetta skiptið var ég að þvo bíla fyrir bílaleiguna Hertz. Fékk stundum að keyra þá eitthvað líka, skemmtilegast að fá að rúnta til Keflavíkur. Þetta ár kom út plata sem heitir Lateralus með hljómsveitinni TOOL og ómaði af því tilefni lagið Schism af plötunni á X-inu. Þetta lag greip mig strax, með flottu riffi, grúvi sem TOOL-liðar taka sér góðan tíma í að byggja, mikilli dínamík í lagasmíðunum og ekki síst magnaðri rödd Maynard James Keenan söngvara sveitarinnar. Þetta lýsir í heild nokkuð vel tónlist TOOL sem er auk þes í senn þung, angistarfull, melódísk, kraftmikil og falleg. Því var ekki seinna vænna, kíkt var í Skífuna og gripurinn Lateralus verslaður. TOOL hefur allar götur síðan verið ein af mínum uppáhalds sveitum, mun aldrei fá leið á plötunum þeirra.

TOOL var stofnuð árið 1990 þegar Maynard söngvari sveitarinnar og Adam Jones gítarleikari ákváðu að stofna hljómsveit sem þeir gætu haft sem áhugamál með vinnu. Adam hafði áður verið í sveit með ekki ómerkari manni en Tom nokkrum Morello úr Rage Against the Machine og segir það hafa verið besta gítarnám sem hann hafi komist í. Þeir bættu svo við sig þeim Danny Carey á trommur og Paul d´Amour á bassa og fóru að skapa sína tónlist. Þeir gáfu út sína fyrstu smáskífu Opiate árið 1992 og fylgdu henni svo eftir með breiðskífunni Undertow árið 1993. Drengirnir fengu að fljóta með í alternative senuna sem var að fá hvað mesta athygli á þeim tíma og fengi því sæti á Lollapalooza tónlistarhátíðinni (til skemmtilegur Simpsonsþáttur þegar Hómer fær að túra með Lollapalooza !). Með þessu náðu þeir að vekja næga athygli á bandinu til að platan seldist í meira en milljón eintökum og náðu þannig platínu á sinni fyrstu breiðskífu, sem er ekki amalegt. Mannabreytingar urðu þó á bandinu og gekk Justin Chancellor til liðs við TOOL á bassa. Árið 1996 fylgdu þeir svo eftir með meistarstykkinu Ænima, magnaðri plötu sem vann til grammy verðlauna. Plötunni var fylgt eftir með Lollapalooza 1997 og svo miklum túr. Myndbönd sveitarinnar eru einnig sér kafli fyrir sig en Adam gítarleikari er menntaður grafískur hönnuður og sér um gera bæði öll þeirra myndbönd og grafík á hulstrin. Myndböndin eru yfirleit brúðumyndir eða teiknaðar hreyfimyndir, frekar súr en passa ávallt við stemninguna í lögunum. En nú gerist það að bandið lendir í málaferlum við útgáfafyrirtækið sem kemur í veg fyrir frekari útgáfu. Maynard stofnar hina stór góðu hljómsveit A Perfect Circle með gítartæknimanni TOOL Billy Howerdel og sögusangir fara á kreik um að bandið hafi sungið sitt síðasta. Þeir ná þó að vinna úr þessum málaferlum og koma sterkir inn 2001 með hinni stórgóðu plötu Lateralus sem kemur þeim aftur rækilega á kortið á ný. Eins og stendur eru TOOL að vinna að nýrri plötu sem von er á þessu ári. Ég bíð spenntur og vona innilega að þeir ákveði að staldra við hér á klakanum þegar þeir fara að túra eftir þá plötu. Áhugi á landi og þjóð virðist alla vega vera þó nokkur á heimasíðu þeirra www.toolband.com og því ætla ég leyfa mér að halda í þá von að sjá goðin í Egilshöll í náini framtíð !

Tuesday, April 19, 2005

Sgnl05

Í gær fór ég á magnaða tónleika með hljómsveitinni ISIS frá Boston. Þeir drengir spila mjög svo framsækið þungarokk og er ein af þessum hljómsveitum, ásamt Pink Floyd, TOOL og ýmsum klassískum tónskáldum, sem lætur mann líða eins og maður verði gáfaðri við að hlusta á hana. ISIS spila tónlist með þykkum hljóm og eru ekkert að flýta sér við að vinna úr melódíunum, heldur byggja ofan á þær og leyfa þeim að anda. Þú setur bara diskinni í spilarann, lokar augunum og leyfir þér að fljóta á hljóðbylgjunum um himingeiminn. Á tónleikunum fann maður einmitt í fyrsta skipti í raun fyrir þessum blessuðu bylgjum. Hljómveggurinn var slíkur að maður fann hvernig maður baðaðist í hljóðbylgjunum sem ómuðu af sviðinu og endurköstuðust um rýmið. Verst bara hvað það var ógeðslega heitt, en maður lét það ekki stoppa sig og fjárfest var í bol til að auka flóruna í fataskápnum og styrkja bandið.

Annars það um bandið að segja að ISIS er stofnað árið 1997 og fer þar fremstur í flokki Aron Turner sem spilar á gítar og syngur, en hann er eigandi útgáfufyrirtækisins Hydre Head Records. Planið var að gera hljómsveit sem spilað tónlist sem væri í senn, minimalísk, framsækin, tilraunakennd, hefði mikla dýpt og þó nokkra þyngd (augljós samanburður myndi vera bandið Neurosis). Turner fór þá að safna að sér tónlistarmönnum sem hefðu sömu sýn á hlutina og semja tónlist. Fyrsti platan þeirra er sjö laga þröngskífa sem fékk heitið The Red Sea og kom út árið 1999. Drengirnir voru duglegir að túra og spiluðu með ekki ómerkari böndum en Converge, Cave In, Neurosis og Dillinger Escape Plan svo eitthvað sé nefnt. Fyrstu breiðskífuna gáfu þeir svo út tveim árum síðar og fékk hún nafnið Celestial. Árið eftir gáfu þeir svo út meistarastykkið Oceanic, mögnuð plata sem ég hvet alla til að eignast. Í fyrra kom svo út Panopticon sem er góð plata, eins og öll þeirra verk. Nú er bara bíða og heyra hvað drengirnir munu bjóða okku upp á næst, efa ekki að það mun vera einhver góður ópus eins og öll þeirra fyrri verk !

Monday, April 04, 2005

We're fucking Pantera, kings of metal !!

Þessi fleygu orð mælti Phil nokkur Anselmo söngvari Pantera á vídeó klippu sem ég átti af þeim drengjum að spila á tónleikum á Ozzfest 2000. Pantera voru þá að fylgja eftir plötunni Reinventing the Steel, síðustu plötunni sem sveitinn náði að gera áður en hún lagði upp laupana árið 2003. Men héldu þó sterkt í þá von að menn myndu leysa sinn ágreining og Pantera myndi halda áfram að gera fyrsta flokks þungarokk. Því miður mun það aldrei gerast þar sem hinn 8 desember 2004 var gítarleikari sveitarinnar, Dimebag Darrel, myrtur þegar snargeðveikur byssumaður stökk upp á sviðið og skaut nokkrum kúlum í gegnum hausinn á honum. Já, þetta voru ekki fréttirnar sem ég vildi fá þegar ég var miðri jólaprófatörn. Hafði ekki beint góð áhrif á einbeitinguna.

Pantera var stofnuð á hinu herrans ári 1982 af þeim bræðrum "Dimebag" Darrel Abbot og Vinnie Paul Abbot á gítar og trommur. Með þeim í sveitina bættust svo bassaleikarinn Rex Brown og söngvari að nafni Terrence Lee. Í kjölfarið fylgdu svo nokkrar vondar glam metal plötur með vond nöfn eins og t.d. Metal Magic, Projects In the Jungel og I Am the Night. Dimebag var þó farinn að geta af sér orðspor sem virkilega hæfileikur gítarleikari og var hann vinsamlegast beðinn um að hætta að mæta í hæfileika keppnir í heimabæ sínum í Texas þar sem hann vann alltaf öruggan sigur. Vann þannig meðal annars Randall magnara stæðuna sína sem hann varð svo frægur fyrir að nota ásamt bláa x-laga Dean gítarnum með eldingarnar. Eftir þessar plötur eru þá gerð merk söngvaraskipti. Út fer Terrence Lee og inn kemur hinn magnaði söngvari Phil Anselmo.
Eftir það fara drengirnir að breyta hljóminum í hljómsveitinni, eðal thrash metall á diskinn með góðri skvettu af pönki og miklu suðurríkja grúvi. Árið 1990 kom svo út hin merka plata Cowboys From Hell sem markaði upphafið að gullárum Pantera. Platan tröllreið yfir þungarokksheiminn og kom Pantera ærlega á kortið. Hér var kominn ferskur hljómur sem markaði endurkomu þungarokksins. Fylgt var eftir með miklum túr og var meðal annars spilað á hinum frægu Monsters Of Rock tónleikum í Moskvu með Metallica og AC/DC. 1992 og 1994 komu svo út hinar stórgóðu plötur Vulgar Display Of Power og Far Beyond Driven sem afrekuðu það seljast í platínu sölu án nokkurar hjálpar frá fjölmiðlum, stórgott orðspor sveitarinar og mikið tónleikaspil var það eina sem þurfti til. En eins og vill oft gerast fóru síðan hlutirnir að liggja niður á við. Phil var farinn að vera nokkuð duglegur að neyta eiturlyfja og tók meðal annars upp á því að deyja, en var sem betur fer lífgaður aftur við. Einnig var hann duglegur að koma sér upp hliðarverkefnum, eins og t.d. hina stórgóðu sveit Down, sem drógu athygli hans frá Pantera. Út voru þó gefnar plöturnar The Great Southern Trendkill og Reinventing the Steel. Þær eru báðar ágætis plötur en ná þó ekki hinum fyrri í gæðum. En það þýðir ekki að syrgja. Pantera gáfu okkur einhverjar bestu þungarokks plötur allra tíma og á meðan maður hefur þær mun andi Dimebag Darrel og Pantera ávallt lifa. Svo er aldrei að vita nema Anselmo komi Down verkefninu aftur saman og þeir geri nýja plötu, þá myndi ég alla vega kætast mikið !

Friday, April 01, 2005

Eyðimerkurrúntrokk !!

Fyrir nokkrum árum síðan var ég á ferðalagi um suðurhluta Þýskalands með fjölskyldunni. Stefnan hafði verið tekin á það að skoða sem mest á sem minnstum tíma og því ekki gist í sama bæ tvær nætur í röð. Tiltölulega snemma á þessu ferðlagi okkur rakst ég á búð sem seldi geisladiska. Þessi búð var meira í ætt við raftækjaverslanir á borð við Elko en þrátt fyrir það var þar mikið úrval af alls kyns rokki og annarri góðri tónlist, auk þess sem diskarnir voru dýrastir 1500 kr en ekki 2500 kr eins og í Skífunni. Upphófst þá mikil leit og verslaðir voru klassískir diskar. Auk þess ákvað ég að skella mér í smá tilraunmennsku og fékk mér disk sem með bandi sem nefnist Fu Manchu. Af honum varð ég ekki svikinn og fékk hann að óma ótt og títt í geislaspilaranum meðan keyrt var um eftir hinu þýska autobahn og landið skoðað.
Fu Manchu koma frá Suður Kaliforníu, ríki austurríska vöðvabúntsins Arnold Schwartzenegger, og var bandið stofnað á því herrans ári 1990 af forsprakka sveitarinn Scott Hill. Í Kalíforníu var farið myndast sena sem hefur gengið undir ýmsum heitum, stóner rokk, eyðimerkur rokk, fuzz rokk, en gekk þó út á að endurvekja grúvið og sækadelíuna sem hafði einkennt rokk snemma á áttunda áratug síðustu aldar, bara hafa það þyngra og með sírópsþykkum fuzz hljóm. En á meðan megnið af böndunum innan senunar leituðust við að gleyma sér í hassdrifnum sækadelíu köflum og framsæknum tónsmíðum í anda Pink Floyd voru Fu liðar ekkert að hafa áhyggjur af því. Vissulegu var þetta líka hluti af þeirra hljóm nema hvað að menn voru ekkert að stressa sig á því að taka sig of alvarlega. Lögin yfirleitt stutt og einföld, textar um kraftmikla bíla, ferðir um himingeiminn, fallegar stúlkur og djamm og skemmtilegheit. Þarna var á ferðinni partírokk sem var eingöngu samið til þess að komast í gott skap og hafa gaman, hvort sem maður var að keyra um eyðimerkur Kaliforníu eða fá sér öl í góðra vina hópi. Fu Manchu verða seint sakaðir um frumlegheit eða tilraunir til þess að þróast of mikið en málið er bara svo einfalt að það sem þeir gera gera þeir virkilega vel. Það er sama hvert tilefnið er, ef ég vil komast í gott skap og líða vel þá skelli ég bara Fu Manchu á fóninn og vandamál heimsins hverfa eins dögg fyrir sólu. Skiptir líka engu hvaða plata það er, því þær eru allar mjög svipaðar og er þetta held ég eina bandið sem ég veit um þar sem það er virkilega góður hlutur !