Friday, April 01, 2005

Eyðimerkurrúntrokk !!

Fyrir nokkrum árum síðan var ég á ferðalagi um suðurhluta Þýskalands með fjölskyldunni. Stefnan hafði verið tekin á það að skoða sem mest á sem minnstum tíma og því ekki gist í sama bæ tvær nætur í röð. Tiltölulega snemma á þessu ferðlagi okkur rakst ég á búð sem seldi geisladiska. Þessi búð var meira í ætt við raftækjaverslanir á borð við Elko en þrátt fyrir það var þar mikið úrval af alls kyns rokki og annarri góðri tónlist, auk þess sem diskarnir voru dýrastir 1500 kr en ekki 2500 kr eins og í Skífunni. Upphófst þá mikil leit og verslaðir voru klassískir diskar. Auk þess ákvað ég að skella mér í smá tilraunmennsku og fékk mér disk sem með bandi sem nefnist Fu Manchu. Af honum varð ég ekki svikinn og fékk hann að óma ótt og títt í geislaspilaranum meðan keyrt var um eftir hinu þýska autobahn og landið skoðað.
Fu Manchu koma frá Suður Kaliforníu, ríki austurríska vöðvabúntsins Arnold Schwartzenegger, og var bandið stofnað á því herrans ári 1990 af forsprakka sveitarinn Scott Hill. Í Kalíforníu var farið myndast sena sem hefur gengið undir ýmsum heitum, stóner rokk, eyðimerkur rokk, fuzz rokk, en gekk þó út á að endurvekja grúvið og sækadelíuna sem hafði einkennt rokk snemma á áttunda áratug síðustu aldar, bara hafa það þyngra og með sírópsþykkum fuzz hljóm. En á meðan megnið af böndunum innan senunar leituðust við að gleyma sér í hassdrifnum sækadelíu köflum og framsæknum tónsmíðum í anda Pink Floyd voru Fu liðar ekkert að hafa áhyggjur af því. Vissulegu var þetta líka hluti af þeirra hljóm nema hvað að menn voru ekkert að stressa sig á því að taka sig of alvarlega. Lögin yfirleitt stutt og einföld, textar um kraftmikla bíla, ferðir um himingeiminn, fallegar stúlkur og djamm og skemmtilegheit. Þarna var á ferðinni partírokk sem var eingöngu samið til þess að komast í gott skap og hafa gaman, hvort sem maður var að keyra um eyðimerkur Kaliforníu eða fá sér öl í góðra vina hópi. Fu Manchu verða seint sakaðir um frumlegheit eða tilraunir til þess að þróast of mikið en málið er bara svo einfalt að það sem þeir gera gera þeir virkilega vel. Það er sama hvert tilefnið er, ef ég vil komast í gott skap og líða vel þá skelli ég bara Fu Manchu á fóninn og vandamál heimsins hverfa eins dögg fyrir sólu. Skiptir líka engu hvaða plata það er, því þær eru allar mjög svipaðar og er þetta held ég eina bandið sem ég veit um þar sem það er virkilega góður hlutur !

1 Comments:

Blogger Birna Kristín said...

Húrra fyrir bloggi

12:41 PM  

Post a Comment

<< Home