Wednesday, April 20, 2005

TOOL

Sumarið 2001 var ég að vinna í einni af mínum mörgu "spennandi" sumarvinnum. Í þetta skiptið var ég að þvo bíla fyrir bílaleiguna Hertz. Fékk stundum að keyra þá eitthvað líka, skemmtilegast að fá að rúnta til Keflavíkur. Þetta ár kom út plata sem heitir Lateralus með hljómsveitinni TOOL og ómaði af því tilefni lagið Schism af plötunni á X-inu. Þetta lag greip mig strax, með flottu riffi, grúvi sem TOOL-liðar taka sér góðan tíma í að byggja, mikilli dínamík í lagasmíðunum og ekki síst magnaðri rödd Maynard James Keenan söngvara sveitarinnar. Þetta lýsir í heild nokkuð vel tónlist TOOL sem er auk þes í senn þung, angistarfull, melódísk, kraftmikil og falleg. Því var ekki seinna vænna, kíkt var í Skífuna og gripurinn Lateralus verslaður. TOOL hefur allar götur síðan verið ein af mínum uppáhalds sveitum, mun aldrei fá leið á plötunum þeirra.

TOOL var stofnuð árið 1990 þegar Maynard söngvari sveitarinnar og Adam Jones gítarleikari ákváðu að stofna hljómsveit sem þeir gætu haft sem áhugamál með vinnu. Adam hafði áður verið í sveit með ekki ómerkari manni en Tom nokkrum Morello úr Rage Against the Machine og segir það hafa verið besta gítarnám sem hann hafi komist í. Þeir bættu svo við sig þeim Danny Carey á trommur og Paul d´Amour á bassa og fóru að skapa sína tónlist. Þeir gáfu út sína fyrstu smáskífu Opiate árið 1992 og fylgdu henni svo eftir með breiðskífunni Undertow árið 1993. Drengirnir fengu að fljóta með í alternative senuna sem var að fá hvað mesta athygli á þeim tíma og fengi því sæti á Lollapalooza tónlistarhátíðinni (til skemmtilegur Simpsonsþáttur þegar Hómer fær að túra með Lollapalooza !). Með þessu náðu þeir að vekja næga athygli á bandinu til að platan seldist í meira en milljón eintökum og náðu þannig platínu á sinni fyrstu breiðskífu, sem er ekki amalegt. Mannabreytingar urðu þó á bandinu og gekk Justin Chancellor til liðs við TOOL á bassa. Árið 1996 fylgdu þeir svo eftir með meistarstykkinu Ænima, magnaðri plötu sem vann til grammy verðlauna. Plötunni var fylgt eftir með Lollapalooza 1997 og svo miklum túr. Myndbönd sveitarinnar eru einnig sér kafli fyrir sig en Adam gítarleikari er menntaður grafískur hönnuður og sér um gera bæði öll þeirra myndbönd og grafík á hulstrin. Myndböndin eru yfirleit brúðumyndir eða teiknaðar hreyfimyndir, frekar súr en passa ávallt við stemninguna í lögunum. En nú gerist það að bandið lendir í málaferlum við útgáfafyrirtækið sem kemur í veg fyrir frekari útgáfu. Maynard stofnar hina stór góðu hljómsveit A Perfect Circle með gítartæknimanni TOOL Billy Howerdel og sögusangir fara á kreik um að bandið hafi sungið sitt síðasta. Þeir ná þó að vinna úr þessum málaferlum og koma sterkir inn 2001 með hinni stórgóðu plötu Lateralus sem kemur þeim aftur rækilega á kortið á ný. Eins og stendur eru TOOL að vinna að nýrri plötu sem von er á þessu ári. Ég bíð spenntur og vona innilega að þeir ákveði að staldra við hér á klakanum þegar þeir fara að túra eftir þá plötu. Áhugi á landi og þjóð virðist alla vega vera þó nokkur á heimasíðu þeirra www.toolband.com og því ætla ég leyfa mér að halda í þá von að sjá goðin í Egilshöll í náini framtíð !

1 Comments:

Blogger Einar said...

Tool í Höllina í ágúst 2005. pant hafa VIP-miða.

3:35 PM  

Post a Comment

<< Home