Friday, September 30, 2005

Hvíl í friði

Fimmtudaginn 29 september 2005 kl 23:05 lést hún amma mín, Kristjana Steingrímsdóttir, nokkrum vikum frá 83ja ára aldri. Hún var góð kona sem hefur staðið mér nærri öll mín 23 ár sem ég hef lifað. Hún var stór hluti af fjölskyldulífinu hér hjá okkur á nesinu og verður hennar sárt saknað. Ég veit að hún er komin á betri stað þar sem hún mun koma til með að fara í veiðiferðir með afa og spila bridge við gamla meistara. Ætla því að hafa mínútu þögn og minnast alls þess góð sem maður hafði.

Monday, September 26, 2005

Klukk

Ég var klukkaður af henni Birnu Kristínu í bloggleiknum og þarf því að skrá hér 5 hluti um sjálfan mig:

1. Mér verður flökurt af gráðaosti
2. Mér finnst gaman að elda góðan mat
3. Ég er í tveimur hljómsveitum með Kalla
4. Ég varð að rokknörd 97 þegar ég heyrði Mr. Brownstone með Guns N' Roses
5. Ég var einu sinni með sítt hár

Á bjagaðri spænsku:

1. Gorgonzola me hace enfermo
2. Quiero cocinar alimeto bueno
3. Estoy en dos bandas con Carlos
4. Llegué a ser rocknerd noventasiete donde yo oído Senior Brownstone con Pistolas y Rosas
5. Yo una vez pelo largo

Held að Björn sé sá eini sem ég þekki sem bloggar sem er ekki búið að klukka, svo ég ætla að klukka hann.

Thursday, September 22, 2005

Bandý, best í heimi ?

Ég hef sjaldan verið jafn sáttur með neina íþrótt og svíversku bolta & prik íþróttina bandý. Þessa íþrótt hóf ég ástundun á eftir að kórinn ákvað leigja íþróttahúsið einu sinni í viku. Þá var bandý eina íþróttin sem allir nenntu að spila og upp frá því hófst þróun sem ekki sér fyrir endan á. Kylfurnar í íþróttahúsinu höfðu verið brotnar þegar við mættum eitt skiptið, sem leiddi til þess að við fjárfestum í eigin setti af kylfum. Það leiddi svo til þess að farið var að spila á nærliggjandi gervigrasvöllum og spilað í allt að 3 sinnum á viku. Nú hefur síðan bandýlið kórsins BF Patri tekið miklum framförum í stórum stökkum eftir að liðsmenn ákváðu að kaupa sér eigin alvöru kylfur og "ráða" til sín þjálfara frá Svíþjóð. Liðsmenn áttuðu sig á því að hægt var að gefa boltann og jafnvel spila aftur til að viðhalda sókninni, í stað þess að slá honum bara alltaf fram og vona það besta. Þetta olli mikilli byltingu og varð til þess að í leikjunum fór að myndast gifurlegt spil, þétt vörn og rosaleg markvarðsla. Það er náttúrulega ótrúlegur kostur við þetta sport að allir geta verið með sama hversu góðir þeir eru. Hraðin í spilinu er mikill og stemningin ávallt góð. Áður fyrr hélt ég að körfubolti væri skemmtilegasta sportið en ég hafði svo sannarlega rangt fyrir mér, hvet alla sem trúa mér ekki að gefa þessari snilldar íþrótt séns. Svo er um að gera fyrir alla sem þetta lesa að mæta í Fífuna í Kópavogi kl 10 á sunnudagsmorgnuninn 25 sept, en þá mun sigurganga BF Patri halda áfram þegar liðið tekur þátt í Íslandsmeistaramótinu í bandý, og er spáð góðu gengi !! (Netgarður fyrrar sig allri ábyrgð af spám og spekúleringum)

Friday, September 16, 2005

Enginn er verri þó hann vökni

Í dag var gerð tilraun til að vekja mig kl 7:30 í morgun og ég spurður hvort ég vildi ekki fara á fætur, keyra mömmu í vinnuna, Hauk í MH og hafa bílinn. Ég leit syfjulegum augum út um gluggan og við mér blasti blanka logn og fuglasöngur. Ég ákvað því að nenna ekki að fara á fætur og sofa út þar sem fram undan voru 3 tímar í VR2, Árnagarði og Haga, og því væri í raun þægilegra (og hollara) að geta hjólað á milli bygginga í stað þess að þurfa að finna stæði. Einnig er plan dagsins að hafa matarboð og elda indverskan, sem krefst þess að maður eyði góðum tíma í eldhúsinu og að taka til í húsinu. Öll rök virtust því vera því í hag að sofa út og hjóla svo ferskur í tíma og hafa svo næga orku til að elda. RANGT !!!
Örlögunum finnst gaman að stríða manni. Eftir góðan morgunblund vaknaði ég og viti menn, það er byrjað að helli rigna og ég mæti hundblautur upp í VR kl 11:00 að mæta í stafrænar síur hjá honum Jóhannesi, og held svo áfram að blotna þegar ég hjóla milli bygginga. Einnig finnst mér óþolandi að vera í masterskúrs þar sem kennari er bara að skrifa upp glósurnar sínar úr sama kúrs úr Stanford. Dettur ýmislegt betra í hug sem ég get verið að gera til að slíta út úliðinum þegar til er gömul uppfinning sem heitir ljósritunarvél sem getur leyst málið og hægt að eyða tímanum í nytsamlegri hluti. Endalaust pirrandi. Og það var að sjálfsögðu kominn meiri rigning þegar sá tími var búinn, og þá hjólað heim blautur og með þreyttan úlið til að fara að hnoða saman deig í naan brauð. Jæja, ætla að hætta að nöldra og fara að ryksuga, og svo gera kjúkling í hnetukarrýsósu :P

Monday, September 12, 2005

Oft er gaman í bíó

Í gær kíkti ég með þeim Einari og Jóhanni í bíó og var förinni heitið að sjá nýjasta verk meistara Tim Burton. Viðfangsefnið að þessu sinni var Kalli og súkkulaðiverksmiðjan eftir Roald Dahl. Minnist þess að hafa átt eftir hann tvær skemmtilegar bækur þegar ég var lítill, um gömul hjón sem þoldu ekki hvort annað og um klókan ref sem stelur hænum frá bónda nokkrum (virðist sem mynd sé í bígerð um refinn skv. imdb). Viðfangsefnið að þessu sinni er um hann Kalla sem er góðhjartaður drengur sem býr með ástríkri en fátækri fjölskyldu sinni í kofa í ónefndri iðnaðarborg í Englandi. Yfir borginni gnæfir risavaxin súkkulaðiverksmiðja iðnjöfursins Willy Wonka sem hefur lokað sig af frá umheiminum og enginn hefur séð í fjölda ára. Willy ákveður svo óvænt að efla til keppni þar sem 5 börn geta fengið að skoða verksmiðjuna hans ásamt einu ættmenni. Sagan er, eins og þær sögur sem ég hef lesið, kaldhæðin og skrýtin dæmisaga sem felur í sér boðskap um fjölskyldu og uppeldi. Burton tekst ansi vel upp við að skapa þann undraverða heim sem leynist inní furðulegri verksmiðju Wonka. Meistari Johnny Depp sér um að túlka Wonka og gerir það rosalega vel að vanda, er í senn meinfyndinn, snjall, barnalegur og furðulegur. Oompa Loomparnir frá Loompalandi koma líka rosa vel út hjá Burton og koma manni ávallt í gott skap. Niðurstaðan er því sú að hér er á ferð virkilega vel gerð mynd með góðum leikurum, þá sérstaklega Depp og þá sem túlka Kalla og Afa hans. Ég hló mikið og dátt að og skemmti mér allan tíman, þrátt fyrir að hafa þurft að sitja skakkur í fremstu röð. Góð mynd sem ég mæli með að allir skelli sér á í bíó. Ætla samt að fara að hætta kaupa mér popp í bíó. Brimsaltur þriggja daga gamall andskoti, þarf að fara finna mér eitthvað nýtt til að maula í bíó. Wonka súkkulaði kannski ?

Friday, September 09, 2005

Que ?

Me llamo Þórir Hrafn. Soy estudiante de ingeneria electronica. Soy es de Islandia. Mio padre se llama Hörður y mio madre se llama Margrét. Mio padre es electricista y mio madre es contador. Soy tengo uno Hermano. Ella se llama Haukur.Ella estudiant de bachillerato. Soy viva el Seltjarnarnes. Soy habla islandia, inglés, alémana y presto español. Soy tengo guitarra y tocar con frecuencia con mio amigos. Soy cantar con coro el universidad.

Afrakstur einnar viku af spænskunámi. Hvað eru svo margar villur í því :D

Sunday, September 04, 2005

Sumt áfengi er böl

Ég fékk í gær og í dag staðfestingu á því sem ég vissi, að líkamanum mínum er ansi illa við tequila í öllu formi. Gunnar meistarakokkur með meiru ákvað að halda matarboð og ákvað að gefa öllum einhvern tequila kokkteil í forrétt. Ég ákvað að ég gæti nú örugglega lifað með tveimur svona blöndum og drukkið svo bjórinn minn. Hins vegar er staðreyndin sú að ég er hænuhaus og þoli illa annað áfengi en bjór í einhverju magni. Niðurstaðan varð þá sú að ég varð ansi drukkinn og seinna meir frekar ónýtur, held að seinast þegar ég varð svona skemmdur var þegar ég drakk tequila síðast fyrir 5 árum. Í dag fæ ég svo njóta hinnar ansi hressandi þynnku sem vill fylgja með tilheyrandi hausverk, slappleika og kókdrykkju. En ég ætla að vona að ég hafi lært eitthvað af þessu og geri ráð fyrir setja aldrei aftur ofan í mig tequila, sama hvernig formi það er í eða hverju er blandað í það. Batnandi manni er best að lifa og þynnkur eru leiðinlegar auk þess sem mér finnst frekar leiðinlegt að verða eitthvað voðalega drukkinn. Bjór fyrir mig takk !