Tuesday, July 25, 2006

Matarhornið - Lasagne

Mér finnst gott að borða, sérstaklega góðan mat. Þess vegna hef ég tekið þá ákvörðun að byrja að henda hér inn öðru hvoru uppskriftum sem hafa reynst mér vel við að halda mér mettum og sælum. Þær eru líka oftast hollar sem skemmir ekki. Einnig mun ég líka reyna að koma með hugmyndir um hvernig megi grænmetisvæða kjötrétti fyrir Siggu grænmetispönkara og aðra sem hafa verið að spá í að hætta að leggja littlu lömbin sér til munns (Kalli, þú varst grænmetisæta í eitt eða tvö ár var það ekki ?).

Alla vega, fyrsti réttur verður Lasagne:

Nr.1 Kjötsósa
Byrjum á því að saxa fínt lauk og 2-4 hvítlauksrif og steikja við meðal hita í ólífuolíu í nokkrar mínútur. Í klassísku lasagne er yfirleitt einnig saxaðar/rifnar gulrætur og saxað sellerí. Ég set alla vega alltaf gulrætur en selleríið fer eftir smekk þeirra sem þurfa að borða það með mér. Restin af grænmetinu sett með lauknum og steikt í 2-3 mínútur áður en nautahakkið er sett á pönnuna. Steikið hakkið þar til það er brúnað og kryddið með svörtum pipar, oregano, smá salti og mikið af basil. Svo skal setja út í eina til tvær dósir af niðursoðnum, söxuðum tómötum (mæli ekki með að nota ferska, sósan vill þá oftast verða of súr), hræra vel saman, lækka hitann niðrí ca. 1/4 af hámarki og leyfa svo sósunni að sjóða í 45 - 60 mín við lágan hita (löng suða við lágan hita er lykill á bakvið allar góðar ítalskar sósur, og indverska karrýrétti). Æskilegt er að smakka á sósunni eftir ca. 30 mín suðu og krydda þá meira með basil og/eða svörtum pipar ef þörf er á. Þegar 5 - 10 mín eru eftir af suðu skal hræra saman við eina litla dós af tómatpúre og þá er kjötsósan tilbúin.
Ekki ætti að vera mikið mál að grænmetisvæða sósuna með því að sleppa nautahakkinu og setja þess í stað eitthvert grænmeti. Grunar mig sterklega að það gæti komið vel út að nota í staðinn saxaðan kúrbít (zúkíní).

Ostasósa:
Byrjið á að bræða væna klípu af smjöri (30 - 50g) í potti við lágan hita (ekki einu sinni reyna að skipta smjörinu út fyrir olíu, sósan mun bara brenna við og allt verða ónýtt !). Hafið því næst tilbúin 1,5 dl af hveiti og svona 5-6 dl af mjólk. Bætið 1 dl af hveiti við smjörið og hrærið saman. Bætið meira af hveiti ef ykkur finnst smjör/hveiti gumsið ekki vera orðið nógu þykkt. Hellið svo mjólkinni strax saman við í hægri bunu og hrærið allan tímann á meðan. Kryddið með smá salti, svörtum pipar og slatta af múskati (nutmeg). Látið suðunu koma upp við lágan hita og hrærið reglulega á meðan til að passa að sósan brenni ekki við og ekki myndist kekkir. Þegar suðan fer að koma upp á sósan að verða orðin tiltölulega þykk. Þá setjið þið saman við 60 - 70 g af rifnum parmasen osti (ekki nota duftið í dollunum ! Getið fengið bæði heil stykki og rifinn ferskan í poka í Hagkaup, og örugglega fleiri stöðum). Hrærið vel saman og takið af hitanum.

Hitið ofninn upp í 190 °C og finnið mót undir lasagne-ið. Byrjið á að setja eitt lag af kjötsósu, svo lag af ostasósu og svo lasagne pastaplötur. Þið getið notað þurrar lasagne pastaplötur, en ég mæli sterklega með að þið notið ferskar plötur. Gerir þetta allt miklu betra. Haldið áfram að setja lög í mótið þar til það er fullt og passið að þekja alltaf allar pastaplöturnar með sósu svo þær brenni ekki í ofninum. Setjið svo að lokum rifinn ost ofan á (ég kaupi alltaf rifinn pizza-ost í poka) og setjið í ofninn í ca. 12 mín ef þið eruð með ferskar plötur, en um 20 mín ef þið eruð með þurrar plötur ef minnið mitt er ekki að bregðast (ætti að standa utan á pakkanum).

Kjötsósuna er svo einnig hægt að nota í spaghettí. Gerið sósuna eins og stendur fyrir ofan og sjóðið spaghettí með (komið upp suðu á fullum potti af vatni sem þið hafið saltað og látið pastað sjóða í um 2 mín styttri tíma en stendur á pakkanum).

4 Comments:

Blogger Birna Kristín said...

þetta þarf ég að prenta út og líma upp á vegg í eldhúsinu :)

7:20 PM  
Anonymous Anonymous said...

Jebb ég líka:) Svo þarf ég örugglega að hringja þrisvar í þig, Þórir, þegar ég prufukeyri uppskriftina hehe

-Telma

3:13 PM  
Blogger Þórir Hrafn said...

Ég verð við símann ;)

11:42 AM  
Anonymous Anonymous said...

god byrjun

7:48 AM  

Post a Comment

<< Home