Monday, August 01, 2005

Faith No More

Er þetta popp ? Er þetta metall ?? Er þetta rapp ??? Nei, hér er á ferðinni Faith No More ! Þessi sveit er með þeim fáu sem geta verið í senn poppaðir, þungir og furðulegir, og oft í sama laginu. Sveitin er stofnuð á því herrans ári 1981 og fengu þeir fyrst athygli með laginu We Care A Lot þar sem þeir blönduðu saman furðulegum metal stíl gítarleikarans Big Jim Martins við 80's rapp. En í raun hefst saga þeirrar Faith No More sem flestir elska ekki fyrr en 1988 þegar upprunnalegi söngvarinn Chuck Mosley er rekinn og í hans stað fenginn ofurbarkinn Mike Patton, þá 20 ára að aldri, sem samþykkti að ganga til liðs við sveitina gegn því að hann myndi samt halda áfram að vera í tilraunarokkbandinu sínu Mr. Bungle. Árið eftir gefa þeir svo út fyrstu plötuna með Patton sem söngvara, hina fínu Real Thing sem gat af sér slagarann Epic. Þarna lætur Patton lítið reyna á fjölhæft raddsvið sitt og syngur með frekar hárri og poppaðri röddu sem gegnur vel við þá popp og metal blöndu sem þeir voru að reyna að ná. Epic varð mjög vinsælt þegar það var gefið út sem singull og markað braut sveitarinnar inn í meginstrauminn. Flestir hefðu eflaust fylgt nýfenginni frægð eftir með því að halda sér á öruggu brautinni og mjólka hljóminn sem hafði gert þá fræga. En Faith No More komu næst til baka árið 1992 með hina mjög svo tilraunakenndu og skemmtilegu Angel Dust. Hér fer Patton að gera ýmsar kúnstir og tilraunir með raddbeytingu sína og lögin eins mismunandi og þau eru mörg, bræðingur af poppi, metal, fönki og öllu öðru sem mönnum getur dottið í hug að skeyta saman. Á þessum tíma var sveitin líka farinn að geta af sér orðspor fyrir almenn furðulegheit, t.d. á Patton að hafa migið í stígvél á tónleikum og svo drukkið úr því, og á einnig að hafa haft gaman af því að skíta í hárþurrkur á hótel og skilja þær svo eftir handa næstu gestum. Einnig hafði gítarleikari sveitarinn, Big Jim, gaman af því að skjóta göt á veggina í hótelum og fylla svo upp í með tannkremi. Eftir Angel Dust fór þó að gæta á brestum innan sveitarinnar og fór svo að Big Jim var rekinn með faxi, þar sem enginn í sveitinni treysti sér til að reka hann í persónu. Hann ræktar víst grasker í dag. Í hans stað sótti Patton gítarleikara Mr. Bungle, Trey Spruance, til að fylla í skarðið og gáfu þeir út plötuna King For A Day, Fool For a Lifetime. Hér er farið að gæta að minni tilraunamennsku innan lagan sjálfra, en þrátt fyrir það eru lögin öll mismunandi og á plötunni að finna bæði angurvær popplög og sveitta rokkara. Eftir upptökurnar á plötunni hættir Trey svo og nokkur gítarleikara skipti fylgja í kjölfarið. 1997 gefa svo Faith No More út plötuna Album Of the Year og gat hún af sér singulinn Ashes To Ashes sem ómaði oft í útvarpinu þegar að ég var að bera út póst á þeim tíma. Hún reynist vera þeirra hnitmiðasta verk og er fín plata, þó að mínu mati sé Angel Dust hátindur sveitarinnar. Fleiri verða þó ekki verk Faith No More þar sem sveitin leggur upp laupana árið 1998. Patton hefur þó ekki setið auðum höndum eftir það. Mr. Bungle hélt áfram starfsemi í nokkur á eftir að Faith No More hættu, áður en þeir lögðu svo einnig hljóðfærin á hilluna. Patton stofnaði svo annars vegar rokkbandið Tomahawk og hins vegar hina mjög svo tilraunakenndu Fantómas og er þess fyrir utan að með í gangi fullt af eigin verkefnum og hjálpaði meðal annars Björk við að gera plötuna sína Medúla. Því miður vill Patton aldrei ræða um hvort einhver möguleiki sé á að Faith No More muni nokkru tíman koma saman aftur og því líklega litlar líkur á því, en við eigum samt þær plötur sem þeir gerðu og hef ég hingað til notið þeirra vel. Vona að þið munið gera það einnig.

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Hi Þórir Hrafn I’ve been looking for Testimony related blogs and I came across yours on Faith No More during my trawl, so I thought it would be polite to let you know about my visit. You are most welcome to come and visit me at Testimony. I would also be happy to trade links with you if you are interested. Bye for now and have a nice day! Brother Roy.

9:21 PM  

Post a Comment

<< Home