Please Allow Me To Adjust My Pants !!
So that I may dance the good time dance !! Svona hljóðar fyrsta línan í laginu Mob Goes Wild eftir snilldarbandið Clutch. Þetta er band sem ég heyrði fyrst af þegar ég las gagnrýni á plötuna Blast Tyrant í gítarblaðinu Total Guitar. Þar á bæ voru menn ansi sáttir og töluðu um að hér væri á ferð allgott grúvmikið og blúsað suðurríkja stónerrokk. Maður var ekki lengi að sitja á sér og Blast Tyrant reddað ásamt öðrum plötum sem maður gat komist yfir. Clutch voru svo ekki lengi eftir nokkra hlustun á Blast Tyrant að verða eitt af mínum uppáhalds rokkböndum, lagasmíðarnar eru bara svo hressar og grúví. Maður sér þessa gaura í anda renna niður Mississippi fljótið á fleka með græjurnar í botni að flytja grúv og gleði til allra. Bandið er tiltölulega tilraunarkennt og tekst mjög skemmtilega að hljóma aldrei eins á plötunum sínum, en þó hljóma alltaf þannig að ekki fari á milli mála að þarna sé Clutch á ferð. Fyrsta platan, Transnational Speedway League, sker sig þó talsvert út þar sem hún er meira í ætt við pönk og er mun aggresívari og einfaldari en þær sem á eftir þeim komu. Drengirnir skiptu svo alveg um gír og gáfu út plötu samnefndri sveitinni sem þykir mjög merkur gripur innan stónerrokksenunar. Eftir það fylgdu menn beinu brautinni og hafa drengirnir gefið út þó nokkrar plötur síðan þá, og af þeim sem ég hef heyrt hefur enginn þeirra verið annað en góð. Það flöktir til milli platna hversu mikil tilraunamennska er í gangi miðað við beinar lagasmíðar og útvarpsvæna rokkslagara, en Clutch eru yfirleitt á heimavelli hvorn pólinn sem þeir taka. Þeir drengir eru nú búnir að vera að síðan 1991, þegar bandið var stofnað í Germantown, Maryland og hefur bandið haldist heilt frá þeim tímapunkti, fyrir utan að nýlega var bætt við hammondorgeli og fjórmenningarnir urðu því fimm. Ég hvet alla sem hafa gaman af hressu og grúví rokki sem tekur sig ekki of alvarlega að kíkja á þessi drengi, og er þá platan Blast Tyrant alls ekki vondur punktur til að byrja á. Njótið vel !!
0 Comments:
Post a Comment
<< Home