Monday, April 30, 2007

Kúplingin og Sverðið

Í gær skellti ég mér á rokktonleika á The Rock sem er staðsettur á Skindergade, við hliðina á Strikinu, getur hýst 600 manns og er með "happy hour" milli 01:00 og 02:00 fimmtudaga til laugardaga, að sjá blúsaða stónerrokkbandið Clutch, ásamt upphitun frá AD&D nördametalbandinu The Sword. Samkvæmt auglýstri dagskrá áttu herlegheitin að hefjast klukkan 20:00, en á þeim tímapunkti stóð ég í röð fyrir utan staðinn og þurfti að vera þar til u.þ.b. 20 mínútur í 21:00. Þá gat ég fengið mér öl, beðið eftir Sverðinu og skoðað Orange magnarana þeirra sem loguðu á sviðinu og gáfu til kynna hráann og öflugan 70's lampamátt. Strákarnir í sverðinu voru með þétta og góða spilamennsku, en eitthvað minna var um sviðsframkomu. Hefði þannig í raun geta verið heima hjá mér með öl að hlusta á diskinn þeirra í botni í gegnum góðar lampagræjur. En ég á ekki neinar almennilegar græjur svo ég kvarta ekki, ekki of mikið alla vega. Nördametalinn þeirra kom manni alla vega í ágætis gír fyrir það sem var í vændum. Svo var bjórpása meðan Orange mögnurunum var komið af sviðinu, Hammond orgelinu komið fyrir, gömlu Marshall JCM800 magnararnir hitaðir, Ampeg stæðan gerð klár og söngkerfið stillt. Clutch mættu svo á sviðið eldhressir og byrjuðu að reita af sér grúvslagar af nýjustu plötunni sinni hvern á fætur öðrum af miklum móð, með söngvarann Neil Fallon í broddi fylkingar að skoppa um sviðið eins og brjálaður farandsprestur og skartandi öflugu alskeggi sem gat ekki annað en krafist athygli. Þrátt fyrir mikinn móð ákvað rafmagnið að fara af sviðinu og var því stutt bjórpása meðan því var kippt í liðinni. Tækifærið var þá nýtt til að væta kverkar áður en gaman hófst aftur með aðeins, en bara aðeins, rólegri lögum með nokkuð af lengdum djammköflum. Söngvarinn smellti svo rótaranum á gítar og keyrslan aftur sett í gang. Held að þessir tónleikar hafi haft eitt það mest smitandi grúv sem ég hafi komist í tæri við og var ansi hreint erfitt að hrista ekki skanka. Ég fór alla vega heim sæll og glaður eftir hressa rokktónleika, vopnaður nýjum bol með hressu bensínstöðvalegu Clutch merki á.

Clutch - The Devil & Me

The Sword - Iron Swan

0 Comments:

Post a Comment

<< Home